Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bensínverð í hæstu hæðum

26.10.2021 - 18:06
Mynd: RÚV / RÚV
Eldsneytisverð hefur hækkað um hátt í 40% á síðustu 18 mánuðum. Bensínlítrinn víða um land er kominn yfir 270 krónur en er þó 40 krónum ódýrari á völdum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu.   

Ekki hærra síðan 2012

Verð á eldsneyti hefur ekki verið eins hátt hér á landi síðan árið 2012. Heimsmarkaðsverð hefur hækkað skart undanfarna mánuði sem skilar sér hingað til lands. Á flestum bensínstöðvum um landið kostar bensínlítrinn núna rúmlega 270 krónur. Á nokkrum bensínstöðvum í nágrenni við bækistöðvar Costco í Garðabæ kostar eldsneytið þó minna, eða um 230 krónur. 

Bensínlítrinn víðast hvar yfir 270 krónum 

Það hefur ekki farið fram hjá bifreiðareigendum sem aka á bensín-, dísil- eða tvinnbílum, og komið verulega við pyngjuna, að eldsneytisverð hefur hækkað hratt á undanförnum vikum og mánuðum. Á flestum bensínstöðvum um landið kostar bensínlítrinn nú rúmlega 270 krónur.

Vissulega er hægt að fá ódýrara bensín á nokkrum bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Það skýrist af stærstum hluta á útsöluverði Costco í Garðabæ þar sem bensínlítrinn kostar tæplega 230 krónur. Aðrar stöðvar hafa svarað því með því að bjóða svipað verð í nágrenni við alþjóðlega verslunarrisann, en þegar komið er út fyrir þann radíus - 270 krónur takk fyrir.

194 krónur fyrir 18 mánuðum

Fyrir rúmu ári - í maí 2020 var algengt lítraverð samkvæmt bensínsínvakt Kjarnans og hugbúnaðarfyrirtækisins Seiðs 194 krónur. Spegillinn ræddi í dag við þá Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóra N1 og Runólf Ólafsson framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda um útlit og horfur í verði á eldsneyti. 

Heyra má umfjöllun Spegilsins í spilaranum hér að ofan. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV