Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja skýrari ramma þegar grunur er um byrlun

25.10.2021 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Talskona Stígamóta segir dæmi um að fólk, sem telur sig hafa verið byrlað ólyfjan, fái ekki sjúkrabíl þegar eftir því er kallað. Eins geti verið erfitt að fá teknar blóðprufur. Einn meðlimur Öfga, sem sjálf hefur lent í byrlun kallar eftir skýrari verkferlum til að taka á þessum brotum.

Um átta prósent sem leita til Stígamóta vegna nauðgunar telja að þeim hafi verið byrlað en ekki tekst alltaf að framkvæma glæpinn.

„Það kemur reglulega til okkar fólk sem hefur upplifað byrlun án þess að hafa lent í öðru ofbeldisbroti í kjölfarið, eins og nauðgun eða einhverjum öðrum glæp. Þau upplifa oft algjört ráðaleysi og úrræðaleysi. Kalla eftir sjúkrabíl og fá ekki aðstoð eða leita til spítalans og fá ekki blóðprufur, vegna þess að það var ekki annað ofbeldi sem varð í kjölfarið,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.

Og byrlun eru algeng eins og twitter-færsla frá meðlimi hópsins Öfgar, gefur til kynna. Þar er spurt: Hvar varst þú þegar þér var byrlað? 137 höfðu skrifað við færsluna skömmu fyrir fréttir og þar eru nefndir hinir ýmsu skemmtistaðir en líka, vinnustaðapartý og útihátíðir. Þá lýsa margir að þeim hafi verið neitað um eiturefnapróf og ástandið skrifað á eigin neyslu.

Fréttastofa hefur reynt að fá tölfræðiupplýsingar í dag en skráning virðist ekki markviss þegar grunur er um byrlun. Hjá Neyðarlínunni er slíkt ekki skráð sérstaklega, en í 33 tilvikum síðustu tvö ár var slíkt skráð í athugasemdum í kerfinu. Hjá Lögreglunni er verið sé að fara handvirkt í gegnum skráningar til að fá betri mynd af umfanginu.

„Það þarf að herja á lögregluna, heilbrigðiskerfið, aðallega bráðamóttökuna og breyta verkferlum á þessum stöðum. Það er ekki til lagaákvæði um þetta en til að lagaákvæði virki þarf fyrst að taka til á hinum stöðunum,“ segir Ninna Karla Katrínardóttir, einn meðlima baráttuhópsins Öfga.

„Það er hægt að skoða lagaramman og gera þetta skýrarara að þetta megi ekki. Skemmtistaðirnir geta verið skýrari með verklag og þjálfað betur starfsfólk til að þekkja einkenni byrlana og passa betur upp á fólk er meðvitundarlítð inn á stöðunum þeirra og síðan er bottom line-ið að það eru gerendurnir sem bera ábyrgð á þessu og þeir þurfa bara að hætta að byrla og hætta að nauðga,“ segir Steinunn.

Ninna Karla hefur sjálf reynslu af byrlun og man brotakennt eftir því þegar tilraun var gerð til að nauðga henni inni á skemmtistað. „Hann dró mig inn á baðherbergi og inn á bás og það voru bara einhverjir englar, ókunnugar stelpur sem drógu mig undir hurðina, út úr básnum og ég næ einhvernveginn að stynja upp símanúmerinu hjá þávernadi kærastanum mínum, þær hringja í hann, hann kemur og sækir mig, fer með mig heim og vakir yfir mér alla nóttina. Ég er eiginlega handviss um það að ef þær hefðu ekki verið þarna hefði mér verið nauðgað þetta kvöld,“ segir Ninna Karla.

Hún segi mörg dæmi þess að fólk sé sent heim með manneskju í annarlegu ástandi og sagt að fylgjast með líðan hennar. Það sé í raun ótrúleg ábyrgð fyrir einhvern sem jafnvel er sjálfur undir áhrifum áfengis.

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir