Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Uppbygging á Blönduósi

25.10.2021 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Guðmannsson - Feykir.is
Mikil uppbygging hefur verið á Blönduósi síðustu ár og er nú verið að byggja ríflega 4000 fermetra iðnaðarhúsnæði auk íbúðarhúsnæðis. Sveitarstjóri segir þó nauðsynlegt að styrkja flutning rafmagns á svæðið til að styðja við atvinnustarfsemi.

Þrenns konar atvinnuhúsnæði

Nú stendur yfir bygging þrenns konar húsnæðis sem ætlað er undir mismunandi starfsemi í bænum. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduóssbæjar segir að verið sé að reisa stórt verktakahús fyrir blandaða starfsemi og björgunarsveitina í einu þeirra. „Síðan er auðvitað gagnaverið sem er farið af stað með næsta áfanga með að byggja 1200 til 1300 fermetra hús sem á að klárast á þessu ári. Þeir eru með áform um annað eins á næsta ári. Þetta eru stærri hús en þau sem eru fyrir. Síðan er nýtt og spennandi verkefni sem er Protis sem er líftæknifyrirtæki.“

Hefur skort íbúðahúsnæði

Í tengslum við atvinnuuppbyggingu hefur íbúum fjölgað talsvert síðustu misseri á Blönduósi og sérfræðistörf eru orðin fleiri samhliða öðrum störfum. Húsnæðisskortur hefur þó staðið frekari íbúafjölgun fyrir þrifum. Nú er hins vegar talsvert af íbúðarhúsnæði í byggingu. Síðustu tvö ár hafa 14 íbúðir verið í byggingu í bænum, tvö fimm íbúða raðhús og tvö parhús. Einnig er unnið að deiliskipulagi fyrir nýtt hverfi í bænum. 

Þörf á meiri raforku

Valdimar segir þó að til að frekari uppbygging sé möguleg þurfi að styrkja flutning rafmagns á svæðið. Nú sé verið að kreista það sem hægt er úr núverandi tengingum.  „Við erum að fara á fund í vikunni, með Landsneti og Landsvirkjun, til að þrýsta á að það verði bætt tenging frá Blönduvirkjun beint 
niður á þetta iðnaðarsvæði.