Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Talið að gæsaskyttur hafi skotið tvö hross

25.10.2021 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tvö hross drápust á Skeggjastöðum í Vestur Landeyjum í síðustu viku. Svo virðist sem þau hafi verið skotin af gæsaskyttum með stórum riffli.

Greint var frá þessu í hádegisfréttum Bylgjunnar. Baldur Eiðsson býr í Lindartúni í Landeyjum, en hrossin voru í hagagöngu í landi Skeggjastaða sem hann hefur til umráða. Skammt frá eru veiðilendur gæsaveiðimanna.

„Á föstudag í síðustu viku þá er ég að athuga með hrossin, þá finn ég 2 dauð hross liggjandi í mýrinni. Þarna er ég við smölun svo ég gef mér ekki tíma til að skoða þetta mikið nánar en ég sé að það hefur blætt úr nösunum á þeim og þau hafa dottið niður dauð. Síðan í gær hitti ég nágranna minn og hann hafði þá stoppað þá menn helgina áður, þá sennilega menn í óleyfi.“

Er talið að þeir hafi orðið hrossunum að bana?

Já ég tel að þessar gæsaskyttur með stóra riffilinn hafi orðið þeim að bana því þetta er ekki algengt að hross detti niður dauð og blæði úr brjósti og nösum. Ég er búinn að kæra þetta til lögreglunnar og hún hefur hafið rannsókn. Ég er búinn að fá dýralækni og hann staðfesti það líka, það eru engin ummerki um spark eða eitthvað slíkt. Hrossin duttu niður dauð.“

Eru einhver ummerki á hræjunum?

Það blæðir úr nösunum á þeim en hræin eru orðin 8-9 daga gömul og það er greinilegt að það hefur blætt úr brjóstkassanum á eldra hrossinu.“ segir Baldur. Annað hrossið var þriggja vetra gamalt en hitt folald. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV