Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sagðist hafa fengið refinn að láni til að gera myndbönd

25.10.2021 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Phil Garcia - Náttúrufræðistofnun Íslands
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk um miðjan þennan mánuð heimild til að fara í húsleit á heimili samfélagsmiðlastjörnunnar Ágústs Beinteins Árnasonar vegna kæru Matvælastofnunar um brot gegn lögum um velferð dýra. Ágúst hefur vakið athygli á TIKTOK fyrir myndskeið með refnum Gústa Jr. Hann greindi starfsmönnum MAST frá því þegar þeir komu heim til hans í september að hann væri ekki eigandi refsins heldur eingöngu fengið hann að láni til að taka upp myndbönd.

Þetta kemur fram í húsleitar-úrskurði  Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtist á vef Landsréttar í dag. 

Landsréttur vísaði málinu frá þar sem lögreglan er búin að fara í húsleitina.  Fram kom á vef visir.is í síðustu viku að hún hefði gripið í tómt á heimili Ágústs; engan ref hefði verið að finna þar. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að það geti varðað stjórnvaldssekt eða kæru til lögreglu að halda villt dýr að tilefnislausu eða ala sér til skemmtunar eða ávinnings til lengri eða skemmri tíma.

Matvælastofnun kærði Ágúst Beintein til lögreglunnar eftir árangurslausar tilraunir til að fá refinn afhentan.  Starfsmenn stofnunarinnar fóru heim til hans þann 23. september en þá sagðist Ágúst ekki vita neitt um refinn, hann væri ekki umráðamaður hans heldur væri refurinn hjá „aðila sem hann vissi ekki nafnið á.“

Samkvæmt úrskurðinum fékk Ágúst frest til 27. september til að gefa MAST upplýsingar um hver ætti refinn, hvar hann væri haldin og hver aðkoma hans væri að málinu. Sama dag svaraði Ágúst því að hann væri ekki umráðamaður refsins og bæri enga ábyrgð á honum. 

MAST og lögregla töldu þetta stangast á við framburð Ágústs, meðal annars ummæli hans um refinn á myndböndum sem sjá mætti á TIKTOK og viðtölum við hann á mbl.is og visir.is. Í þeim kæmi skýrt fram að hann væri umráðamaður refsins og héldi hann sem gæludýr sitt.

Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að  MAST telji brýnt að refurinn verði fyrirvaralaust tekin úr vörslum Ágústs eða umráðamanns og komið á stað sem sé viðunandi fyrir dýrið.  „[Ágúst ] virðist nota refinn til að draga að sér athygli á samfélagsmiðlum, m.a TIKTOK,“ segir í greinargerð lögreglunnar.

Í úrskurðinum kemur einnig fram að lögreglan krafðist þess að krafan um húsleitina yrði tekin fyrir án þess að Ágúst yrði kvaddur fyrir dómþingið. Sú beiðni byggði á rannsóknarhagsmunum. Lögregla taldi mikilvægt að Ágúst fengi ekki upplýsingar um húsleitina áður en að henni kæmi, hann gæti þá komið dýrinu undan og torveldað rannsókn málsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV