Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Máli kaffihúss vegna grímuskyldu í Kringlunni vísað frá

Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í síðustu viku frá máli tveggja forsvarsmanna kaffihúss í Kringlunni sem kröfðust þess að viðurkennt yrði með dómi réttur þeirra til að vera undanþegin grímuskyldu í Kringlunni af heilsufarsástæðum. Þeir töldu kröfu Kringlunnar um að þeir væru með grímu utan kaffihússins vera ólögmæta. Með henni hefði þeim í raun verið meinuð frjáls för um sameiginleg svæði verslunarmiðstöðvarinnar og rekstrargrundvöllur kaffihússins lagður í rúst.

 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að fólkið reki kaffihúsið og séu einu starfsmenn þess. Þau fengu vottorð frá læknum um undanþágu frá grímuskyldu af heilsufarsástæðum. 

Þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst setti Kringlan þær reglur að grímuskylda væri á öllum sameignarsvæðum verslunarmiðstöðvarinnar.

Starfsmennirnir sögðust ekki hafa getað hreyft sig út fyrir kaffihúsið án þess að setja upp grímu. Þau töldu sig því hafa lögvarða, brýna og aðkallandi hagsmuni af því að fá það viðurkennt með dómi að þau væru með undanþágu frá grímuskyldu á sameiginlegum svæðum Kringlunnar.  Enda orðið fyrir gríðarlegu fjártjóni og atvinnumissi vegna grímuskyldunnar.

Í dómnum segir að kaffihúsinu hafi verið lokað í apríl en hafi nú opnað að nýju. 

Forsvarsmenn Kringlunnar bentu á að grímuskylda hefði verið afnumin í verslunarmiðstöðinni 25. maí.  Auk þess væri nú ekki lengur skilyrðislaus almenn skylda til að bera grímu og forsendur fyrir málsókninni því brostnar. Þá hefðu starfsmennirnir ekki fært nægar sönnur á að heilsufari þeirra væri svo komið að þeir gætu ekki notað andlitsgrímur í jafn takmarkaðan tíma og krafist var af þeim.

Héraðsdómur tekur undir það og og kemst að þeirri niðurstöðu að starfsmönnunum hafi ekki tekist að sýna fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm á kröfu sína.

Óumdeilt sé í dag að starfsmennirnir megi vera grímulausir á sameiginlegum svæðum Kringlunnar. Og engin rök standi til þeirrar málsástæðu að Kringlan hafi fellt reglur sínar úr gildi til að koma sér undan málsókninni. Henni hafi verið aflétt þega byrjað var bólusetja við farsóttinni og vísbendingar voru um að faraldurinn væri í rénum.

Var málinu vísað frá og forsvarsmönnum kaffihússins gert að greiða 300 þúsund krónur í málskostnað.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV