Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aðeins tveir bæir taka þátt í heimaslátrunartilraun

25.10.2021 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fáir bændur treystu sér til að uppfylla kröfur til þátttöku í heimaslátrunarverkefni þetta haustið, mun færri en tilkynntu þátttöku. Bændur þurfa bæði að hafa löglega kjötvinnslu og að útbúa gæðahandbók og það hefur staðið í mörgum.

Það vakti athygli þegar þáverandi forstjóri MATÍS, Sveinn Margeirsson, tók þátt í að selja heimaslátrað kjöt á bændamarkaði á Hofsósi í september 2018. Uppátækið kostaði hann starfið en hann var nýverið sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands af ákæru um lögbrot með sölu og dreifingu á fersku lambakjöti af gripum sem hafði verið slátrað utan löggilts sláturhúss.

Málið vakti umræðu um hvort bændur þyrftu ekki að geta slátrað heima til sölu og var ákveðið að ráðast í tilraunaverkefni um heimaslátrun. Á þriðja tug bæja tilkynnti um þátttöku en Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekk í Breiðdal, sem ætlaði að taka þátt segir kröfur meiri en búist var við og í raun þyrfti hún að byggja til að geta tekið þátt. Þegar á hólminn var komið og í ljós kom hvaða kröfur yrðu gerðar hafi aðeins tvö býli séð sér fært að taka þátt enda tíminn knappur.

Annað þeirra er Birkihlíð í Skagafirði. Þar stóðu bændur vel að vígi með löggilda kjötvinnslu á bænum. Þröstur Heiðar Erlingsson er bóndi í Birkihlíð. „Við tókum bara fá lömb til að byrja með til að tékka á rennslinu í þessu og tókum bara átta stykki. Það gekk bara alveg ljómandi hreint og dýralæknirinn afar sáttur. Ég náttúrulega er með löglega kjötvinnslu, þú verður alltaf að hafa svoleiðis á bak við þig til að geta unnið kjötið hvort eð er. Svo er náttúrulega gæðahandbók; það þarf að uppfylla hana og búa hana til. Það stendur rosalega í mörgum. Finnst það svakalegt torf og það er svolítið torf að fara í gegnum. En þegar það er komið þá er það bara frá og þetta er bara hlutur sem menn þurfa að gera en þetta er alveg yfirstíganlegt allt með góðra hjálp. En það verður bara spennandi að sjá hvað gerist í framtíðinni hvort að menn fari ekki að hugsa sér til hreyfings meira ég hef nú fulla trú á því að það verði þannig,“ segir Þröstur Heiðar.