Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tíu ára dómur fyrir þátttöku í mótmælum

24.10.2021 - 04:20
epa09339363 People arrest an anti-government protestor during a pro-government rally in Havana, Cuba, 11 July 2021. Cuban President Miguel Diaz-Canel encouraged his supporters to take the streets as a response to protest against his governement. Thousands of Cuban took the streets on 11 July to protest against Cuba's government, in what is considered the first major protest in the last 60 years.  EPA-EFE/Ernesto Mastrascusa
 Mynd: EPA-EFE - EFE
38 ára Kúbverji var nýverið dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir þátt sinn í mótmælum gegn kommúnistastjórninni í sumar. Þetta er þyngsti dómurinn hingað til í máli yfirvalda gegn mótmælendum í sumar.

Roberto Perez Fonseca var meðal þúsunda Kúbverja sem kröfðust frelsis og matar á götum tuga borga 11. og 12. júlí. Bágum lífsskilyrðum og kúgun stjórnvalda var einnig mótmælt. Mótmælin áttu sér enga hliðstæðu þau rúmlega sjötíu ár sem liðin eru frá byltingunni árið 1959.

Einn lét lífið og tugir slösuðust í mótmælunum þegar öryggissveitir kváðu þau niður. Yfir 1.100 voru handteknir, og er yfir helmingur þeirra enn í varðhaldi að sögn mannréttindasamtakanna Cubalex, sem hafa aðsetur í Miami í Bandaríkjunum.

Samkvæmt dómnum er Perez Fonseca dæmdur fyrir óvirðingu, óspektir á almannafæri og fyrir að hvetja til glæpa. Samkvæmt dómsskjölum var dómur kveðinn yfir honum 6. október, og fjölskyldu hans greint frá honum í vikunni. Þrír dómarar málsins hlýddu á eitt vitni, lögreglumanninn Luis Garcia Montero úr borginni San Jose de las Lajas. Ættingi og vinur Perez Fonseca vildu bera vitni fyrir hönd verjenda, en þeim var hafnað.

Að sögn AFP fréttastofunnar sagði lögreglumaðurinn að Perez Fonseca hafi hvatt aðra mótmælendur til að henda grjóti og flöskum í átt að lögreglumönnum. Þá hafi hann sjálfur grýtt steini sem hæfði hönd lögreglumannsins og öðrum sem lenti á lögreglubíl.

Boðað hefur verið til annarra mótmæla 15. nóvember næstkomandi. Stjórnvöld hafa þegar bannað þau og vara fólk við afleiðingum þess að taka þátt. Þá telja stjórnvöld að Bandaríkin hafi staðið á bak við mótmælin í sumar, í þeirri von að þau dygðu til þess að velta stjórn Kúbu úr sessi.