Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Réttarhöld yfir Salvini hafin

epa09541024 Matteo Salvini (C), flanked by his lawyer Giulia Bongiorno (R), meets journalists in front of the bunker of the Pagliarelli prison after a hearing on the Open Arms trial in Palermo, Sicily Island, southern Italy, 23 October 2021. The trial sees Italian former Interior minister Matteo Salvini accused of kidnapping and omission of official documents for having banned in 2019 the Spanish NGO ship Open Arms from docking at an Italian port for several days.  EPA-EFE/IGOR PETYX
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Réttarhöld yfir Matteo Salvini, fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu og leiðtoga Fylkingarinnar, vegna ákvörðunar hans um að koma í veg fyrir komu skips með flóttamenn um borð hófust í gær. Hann er sakaður um mannrán og að misnota völd sín sem ráðherra til þess að halda 147 flóttamönnum föngnum úti á sjó í ágúst árið 2019. Salvini á yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi verði hann dæmdur.

Réttarhöldin stóðu aðeins yfir í um þrjár klukkustundir áður en dómarinn gerði hlé á þeim fram til 17. desember. 

Salvini byggði pólitískan feril sinn á harðri afstöðu gegn innflytjendum. Hann hefur þó sagt að hann hafi ekki verið einn um ákvörðunina að banna björgunarskipinu að leggjast að bryggju árið 2019. Öll ríkisstjórnin hafi samþykkt hugmyndina, þar á meðal þáverandi forsætisráðherra, Giuseppe Conte, hefur Al Jazeera eftir honum.

Saksóknarar hafa einmitt óskað eftir því að Conte verði á vitnalista. Auk þeirra vilja þeir að núverandi innanríkisráðherra, Luciana Lamogese, og utanríkisráðherrann Luigi Di Maio beri vitni í málinu. Bandaríski leikarinn Richard Gere verður einnig meðal vitna, að ósk spænsku góðgerðarsamtakanna Open Arms sem gera út björgunarskipið. Gere fór um borð í skipið til að sýna flóttamönnunum samstöðu áður en það fékk að leggjast að bryggju í Lampedusa. 

Salvini hefur sagt réttarhöldin pólitísk, og spurði á Twitter hvað þau eigi eftir að kosta ítölsku þjóðina. Þá sagði hann boðun Gere í vitnastúku sýna fram á fáránleika réttarhaldanna. 

Skip Open Arms kom yfir 150 flóttamönnum til bjargar af illa búnum fleyjum á Miðjarðarhafi í þremur björgunaraðgerðum í ágústbyrjun árið 2019. Skipið lónaði fyrir utan Lampedusa um miðjan mánuðinn en var bannað að okma að bryggjunni. Aðstæður um borð voru þröngar og bágar, og stukku einhverjir fyrir borð í algjörri örvæntingu og reyndu að synda til lands. Eftir að fulltrúi frá embætti ríkissaksóknara skoðaði aðstæður um borð var ákveðið að leggja hald á skipið með þeim sem enn voru innanborðs. Salvini varði aðgerðir sínar ítrekað með þeim orðum að hann hafi verið að verja hagsmuni Ítalíu og stjórnvalda.

Salvini gæti átt yfir höfði sér aðra ákæru fyrir sams konar mál fyrr um sumarið 2019. Það mál er nú til rannsóknar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV