Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Metfjöldi smita í Færeyjum á föstudag

24.10.2021 - 07:49
epa06016625 The harbour of the country's capital Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
Þórshöfn í Færeyjum. Mynd: EPA - KEYSTONE
Metfjöldi COVID-19 smita greindist í Færeyjum á föstudag þegar 89 tilfelli greindust. Áður var mesti fjöldi smita á einum sólarhring 38. 216 eru nú í einangrun með kórónuveirusmit, og er það í fyrsta sinn sem yfir 200 virk smit eru í einu á eyjunum að sögn Kringvarpsins. Einn er á sjúkrahúsi vegna COVID-19. 288 eru í sóttkví.

Langflest smitin undanfarið hafa verið á Norðureyjum og Austureyju. Lars Fodgaard Møller, landlæknir Færeyja, segir í samtali við Kringvarpið að hann leggi til að reynt verði að vernda óbólusett börn og ungmenni sérstaklega. Sóttvarnarnefnd Færeyja tekur ákvörðun í dag um hvort gripið verði til aðgerða, hefur Kringvarpið eftir Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja. 

Nærri 70 prósent Færeyinga eru fullbólusettir við kórónuveirunni, þar af nærri 84 prósent tólf ára og eldri.