Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lífi fátækra fórnað á altari skemmtunar

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix

Lífi fátækra fórnað á altari skemmtunar

24.10.2021 - 09:37

Höfundar

Eitt vinsælasta umræðuefni veraldar þessa dagana eru kóresku þættirnir Squid Game sem sýndir eru á Netflix. Í stuttu máli fjalla þættirnir um baráttu upp á líf og dauða á milli fátækra og skuldugs utangarðsfólks í Suður-Kóreu í þeim tilgangi að skemmta þeim ofurríku.

Squid Game eru vinsælustu þættir í sögu Netflix og rúmlega 130 milljónir hafa horft á þá hingað til. Tekjur Netflix af þáttunum eru gríðarlegar en samkvæmt frétt Bloomberg hefur Netflix hagnast um tæpar 900 milljónir dollara, en framleiðslukostnaður við þættina var um 20 milljónir dollara.

Fylgifiskar vinsældanna hafa verið nokkuð óvæntir. Í þáttunum má til að mynda sjá símanúmer sem keppendur fá afhent. Símanúmerið tilheyrir óheppnum íbúa í Suður-Kóreu sem fékk holskeflu af símtölum yfir sig á öllum tímum sólarhrings. Framleiðendur þáttanna segjast vera að vinna í lausn á málinu sem virðist aðallega felast í að þessi tiltekni einstaklingur skipti um símanúmer. Þá hafa fjarskiptafyrirtæki kvartað undan vinsældum þáttanna þar sem internetumferð hafi aukist óhemju mikið eftir að þeir fóru inn á Netflix. 

Nágrannar Suður-Kóreu í norðri nota þættina sem staðfestingu á því hversu ógeðslegt samfélag þrífst í Suður-Kóreu. En samkvæmt áróðurssíðum stjórnvalda í Norður-Kóreu sýna þættirnir fram á hversu mikil spilling þrífist í Suður-Kóreu þar sem siðlausir skúrkar valsi um. 

Barnaleikir upp á líf og dauða

Í nýlegri grein NME er farið yfir hvernig þættirnir séu nýjasta dæmið þar sem fátækir eru notaðir sem leiktæki hinna ríku í sjónvarpi og kvikmyndum. Hvort sem áhorfendum sé umhugað um stéttabaráttuna eða ekki er ljóst að þema þáttanna á svo sannarlega upp á pallborðið hjá þeim. 

Á síðustu árum hafa fjölmargar borgir risið hratt í Suður-Kóreu og á meðan auður hinna ríku eykst stöðugt verða æ fleiri fastir í viðjum fátæktar í borgum landsins. Stéttabaráttan hefur því verið kvikmyndagerðarfólki hugleikin í landinu eins og sjá má í Squid Game og Óskarsverðlaunamyndinni Parasite. 

Í Squid Game eru þátttakendur vandlega valdir úr hópi fátækra og skuldugra, fólk sem á nánast enga möguleika á sómasamlegu lífi nema að það verði sér út um gríðarlegar fjárhæðir, sem því er einmitt lofað með þátttöku í leikunum. Hópnum er safnað saman á leynilegum stað þar sem risavaxnir leikvellir hafa verið byggðir. Þar mætast keppendur í vinsælum barnaleikjum þar sem sigurvegararnir halda áfram á meðan þeir sem tapa eru myrtir á hrottafengin hátt. Það er því ögn meira í húfi í leikjum Squid Game en í stafaleiknum í Kappsmáli. 

Þættirnir eru ekki þeir fyrstu sem gera sér mat úr því að hinir ofurríku nýti sér vanmátt fátækra og spili með líf þeirra í þeim eina tilgangi að skemmta sjálfum sér. Skáldsögurnar og kvikmyndirnar um Hungurleikana fylgja sambærilegu þema og einhver hafa jafnvel nefnt Charlie & the Chocolate Factory til sögunnar. En þar, líkt og í Squid Game, fær sérvitur milljónamæringur almenna borgara til að framkalla ýmsar þrautir og þeir sem ekki standast kröfur hans er kastað í burt frá sigurlaununum.

Tengdar fréttir

Innlent

Segir ekki öllu skipta á hvað sé horft heldur hve lengi

Sjónvarp

Vinsæl þáttaröð setur líf veitingasala úr skorðum