Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hundruð fanga á flótta í Nígeríu

24.10.2021 - 01:57
epa09534457 A policeman is seen wearing a hood during a memorial protest for a military attack at the Lekki tollgate in Lagos, Nigeria, 20 October 2021. Police disperse youths who held a memorial protest in Lagos to commemorate a military attack during the protest against police brutality on 20 October 2020.  EPA-EFE/AKINTUNDE AKINLEYE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um sex hundruð fangar eru enn á flótta eftir að hópur vopnaðra manna hjálpaði yfir 800 föngum að sleppa úr fangelsi í Oyo héraði í suðvestanverðri Nígeríu á föstudag. Deutsche Welle hefur eftir lögreglu í Nígeríu að um tvö hundruð flóttafangar hafi verið handsamaðir. 

Samkvæmt fangelsisyfirvöldum í Nígeríu hófu vopnuðu mennirnir skotárás á fangaverði og notuðu dýnamít til þess að sprengja holu á múrana í kringum fangelsið. Þannig komst vopnaði hópurinn inn í fangelsisgarðinn. Um 575 fangar sem bíða réttarhalda eru enn á flótta, en 262 hefur verið náð að sögn DW. 

Aðeins gæsluvarðhaldsfangar sem bíða réttarhalda náðu að flýja með hjálp vopnuðu mannanna. Afplánunarfangar og kvenfangar urðu eftir í fangelsinu að sögn fangelsisyfirvalda. 

Þetta er í þriðja sinn á þessu ári sem vopnaður hópur nær að hjálpa föngum að flýja úr nígerísku fangelsi. Í apríl sluppu yfir 1.800 fangar eftir árás á fangelsi í Imo héraði og í síðasta mánuði sluppu 266 úr fangelsi í Kogi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV