Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hjartsláttarlögin standa en málflutningi flýtt

Mynd með færslu
Hæstiréttur Bandaríkjanna. Mynd: CC0 - Pixabau
Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfir hjartsláttarlögunum svokölluðu, umdeildum þungunarrofslögum í Texas að standa óbreyttum en hefur flýtt málaferlum vegna þeirra. Málið verður tekið fyrir þegar í næsta mánuði.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna fór fyrir nokkrum dögum formlega fram á að dómstóllinn ógilti lögin sem væru ósamrýmanleg stjórnarskrá landsins og úrskurð frá árinu 1973, mál Roe gegn Wade, sem festi réttinn til þungunarrofs endanlega í lög.

Lögin í Texas taka nánast algerlega fyrir þungunarrof með því að banna það eftir að hjartsláttur greinist í fóstri. Það gerist yfirleitt á sjöttu viku meðgöngu en þá vita konur sjaldnast af þunguninni.

Sömuleiðis er hverjum og einum heimilt að höfða mál gegn læknum sem rjúfa meðgöngu eftir þann tíma, og jafnframt öllum öðrum sem aðstoða við það. 

Enn á eftir að kveða úr um lögmæti laganna á lægri dómstigum. Lögmenn Texas-ríkis fóru þess á leit við Hæstarétt að hnekkja niðurstöðu dómsmálsins Roe gegn Wade en án árangurs.

Munnlegur málflutningur hefst 1. nóvember en í yfirlýsingu Hæstaréttar segir að sjónum verði einkum beitt að því hvernig lögin voru samansett og hvort mögulegt sé að draga lögmæti þeirra í efa.

Dómarinn Sonia Sotomayor var ein um að vilja ógilda lögin tímabundið en hún sagði tímann vera að renna út fyrir margar þær konur í Texas sem biðu þungunarrofs milli vonar og ótta.