Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hæsta dánartíðni heims af völdum COVID-19 í Perú

epa09530471 Devotees pray in front of the image of the 'Lord of Miracles', in the Church of Las Nazarenas in Lima, Peru, 18 October 2021. Devotees visit the image of Jesus Christ, known as the Lord of Miracles, in his sanctuary located in the historic center of Lima as, due to the pandemic, the usual procession held every October is not allowed.  EPA-EFE/Paolo Aguilar
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 200 þúsund eru nú látin af völdum kórónuveirunnar í Suður-Ameríkuríkinu Perú. Hvergi í heiminum er dánartíðni af völdum COVID-19 hærri en þar í landi.

Um 2,2 milljónir hafa sýkst af sjúkdómnum í landinu sem telur um 33 milljónir íbúa, frá því faraldurinn skall á í mars 2020. Mexíkó og Brasilía eru einu löndin í Rómönsku Ameríku þar sem fleiri hafa dáið en íbúafjöldinn er margfaldur á við Perú.

Dánartíðni í Perú er 6.065 á hverja milljón íbúa samkvæmt samantekt AFP-fréttastofunnar, sem er hæsta hlutfall í heimi. Tilfellum hefur verið að fækka undanfarið í Perú og andlátum sömuleiðis. Þegar mest var létust 2.500 á viku en í síðustu viku var sú tala komin niður í 169.

Það hefur orðið til þess að slaka hefur mátt nokkuð á samkomutakmörkunum. Faraldurinn hefur haft alvarleg áhrif á efnahag landsins og atvinnulíf.

Fækkun tilfella er þökkuð bólusetningum en heilbrigðisyfirvöld óttast nýja bylgju af völdum Delta-afbrigðisins sem nú er ráðandi. Hernando Cevallos heilbrigðisráðherra segir vel fylgst með þróun mála.

Mögulegt sé að fyrstu tvær bylgjur faraldursins hafi skapað ónæmi hjá hluta íbúa landsins ásamt bólusetningunum. Vonir standa til að 70 prósent íbúa Perú yfir tólf ára aldri verði bólusett fyrir árslok.