Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldar loguðu við flugbrautina

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ein stærsta hópslysaæfing sem haldin er hér á landi fór fram á Keflavíkurflugvelli í dag. Æfð voru viðbrögð við brotlendingu farþegaþotu með 120 farþega innanborðs.

Hópslysaæfing á Keflavíkurflugvelli fer fram á þriggja til fimm ára fresti. Undirbúningur fyrir æfinguna hefur staðið yfir í þrjá mánuði. Á bak við hana eru 10 þúsund vinnustundir  og er áætlaður kostnaður 24 milljónir króna.

„Það eru um 450 til 500 manns að taka þátt í dag með einum eða öðrum hætti þannig að þetta er bara mikil áskorun. Þetta er ein stærsta hópslysaæfing á Íslandi, það er þegar við erum að halda þessar æfingar á Keflavíkurflugvelli,“ segir Elva Tryggvadóttir, æfingastjóri.

Reynt að gera aðstæður sem raunverulegastar

120 leikarar taka þátt í æfingunni, mestmegnis úr ungliðahreyfingum björgunarsveitanna og leikhópum á Suðurnesjum. Þeir voru mættir í förðun á Ásbrú upp úr klukkan sex í morgun enda allt gert til að gera aðstæður á vettvangi sem raunverulegastar.

Atvikalýsingin er þannig að skömmu fyrir lendingu er tilkynnt um eld í hreyfli Boeing 737 flugfélagsins Fly no More sem er á leið frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Um 120 farþegar eru um borð. Ekki vill betur til en að flugvélin brotlendir og hafnar utan flugbrautar í ljósum logum.

Ekki var flugvél til taks en kveikt var í bílum og lagði á tíma mikinn reykjarmökk í átt að flugstöðvarbyggingunni. Þá var einnig notast við gamlan strætisvagn og rör þar sem búið var að koma fyrir sætum úr flugvél. 

Erfitt að halda karakter

Greiðlega gekk að slökkva elda og höfðu viðbragðsaðilar í nógu að snúast að hlúa að hinum slösuðu og koma þeim í öruggt skjól. Stóðu leikararnir sig með stakri prýði. „Þetta er búið að vera mjög áhugavert. Ég bjóst ekki við því að geta sett mig svona í rosalega inn í verkefnið. [Það erfiðasta er]  halda karakter og gráta, eins og þú heyrir er ég búin að missa röddina,“ segir Jóhanna Friðsemd Kristinsdóttir, ein þeirra sem var í hlutverki farþega.

Eru klár ef á þarf að halda

Viðbragðsáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll er sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á Íslandi. Hún gerir ráð fyrir aðkomu allt að 900 viðbragðsaðila, svo sem slökkviliðs, lögreglu, rauða krossins, starfsliðs flugvallar, björgunarsveita og heilbrigðisstarfsmanna.

Að jafnaði er áætlunin virkjuð einu sinni í mánuði en blessunarlega kemur það sjaldan fyrir að lýsa þarf yfir neyðarstigi - og þá er gott að vera vel undirbúinn. „Við erum með góðar viðbragðsáætlanir sem að við erum meðal annars að æfa núna og með því að slípa samstarfið okkar á milli þá erum við alltaf betur í stakk búin til að taka á móti því. En við erum klár ef á þarf að halda,“ segir Elva æfingastjóri.

Magnús Geir Eyjólfsson