Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian kaupir Mílu

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Síminn hefur gert samkomulag við alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian SA um kaup á öllu hlutafé í dótturfélaginu Mílu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu og að nokkrum lífeyrissjóðum verði gefinn kostur á að fjárfesta í fyrirtækinu.

Kaup Ardian eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en fyrirtækið er ekki sagt eiga hlut í fyrirtækjum sem keppt gætu við Mílu hér á landi eða á hinum Norðurlöndunum.

Ardian hefur fjárfest í innviðum á Norðurlöndum og er Míla sú sjötta slík,  sú fjórða í fjarskiptageiranum en sú fyrsta á Íslandi. Míla rekur ljósleiðarakerfi um allt land en sala fyrirtækisins var tekin fyrir í þjóðaröryggisráði. 

Síminn verður áfram stærsti viðskiptavinur Mílu en haft er eftir Orra Haukssyni forstjóra Símans að Míla verði nú fullkomlega sjálfstætt fyrirtæki og það verði til hagsbóta fyrir almenning með bættu samkeppnisumhverfi á íslenskum fjarskiptamarkaði.

Jón Ríkharð Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu tekur undir það og segir jafnframt að fjárhagslegur styrkur Ardian, reynsla og þekking tryggi frekari uppbyggingu á fjarskiptasviðinu. Kaupverðs er ekki getið í fréttatilkynningunni. 

Höfuðstöðvar Ardian eru í París en það hefur á að skipa um átta hundruð starfsmönnum og skrifstofum víða um heim.  Fyrirtækið er að mestu leyti í eigu starfsmanna þess, að því er fram kemur á vefsíðu þess. 

Ardian er með um 114 milljarða Bandaríkjadali, eða sem jafngildir um rúmlega 14.700 milljörðum íslenskra króna, í eignastýringu, meðal annars fyrir ríkisstjórnir, lífeyrissjóði og tryggingafélög.