Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við þurfum bara fleiri úrræði“

22.10.2021 - 21:42
Slökkviliðsstjóri vill rýmri heimildir til eftirlits með eldvörnum í íbúðarhúsum, og jafnvel sektarheimild ef þær eru ekki í lagi. Húsið sem brann við Bræðraborgarstíg í fyrra, þar sem þrjú létust, var skráð íbúðarhús og því ekki undir eftirliti. Ef brunahólf hefðu verið í lagi, er líklegt að eldurinn hefði valdið mun minni skaða.

Fjallað var um eldsvoðann í dag  á ráðstefnu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Á vakt fyrir Ísland.

Margir slasaðir fyrir utan húsið og mikill eldur

Kveikt var í húsinu um miðjan dag í júní í fyrra. Þrjú fórust, tvær konur og einn karlmaður. Þau voru á aldrinum 22 til 26 ára. Tvö létust vegna reykeitrunar og ein þegar hún stökk eða féll niður af þriðju hæð hússins þegar engar útgönguleiðir voru færar. Stefnir Snorrason var varðstjóri á slökkviliðsbílnum sem fyrstur kom á vettvang. 

„Áskoranirnar sem voru var mest hvað það var mikið kaos í gangi, það voru margir slasaðir og meiddir fyrir utan húsið og mikill eldur í húsinu og það varð að taka ákvörðun mjög fljótt um að fara inn til þess að slá á eldinn, eins og við köllum að færa hann aftur í tíma, til þess að eiga möguleika á að bjarga þeim manni sem ennþá var uppi, sem við sáum, en við náttúrulega vissum ekki hvað margir voru ennþá inni svo að við fórum bara beint upp í eldinn til þess að reyna að slá hann niður til þess að reyna að leita að einhverjum, ef að einhverjir væru þarna í ganginum, af því að fólk er oftast einhvers staðar við útganga og við glugga, sem hefur verið að reyna að koma sér út,“ segir Stefnir. „Þannig að það var mikil áskorun, sérstaklega þar sem við vorum bara þrír. En við reyndum að gera allt sem við gátum.“

Hann segir að komið hafi á óvart hversu hratt eldurinn breiddist út. „Það kom rosalega á óvart hvað eldurinn hafði þróast hratt, á þeim tímapunkti frá því það er boðað í þetta og á þessum tímapunkti á deginum, hvað eldurinn var útbreiddur á stuttum tíma.“ 

Stefnir hélt erindi um aðkomuna á ráðstefnunni. Hann segir að það hafi verið erfitt að rifja upp atburði dagsins. „Já, mjög. Það var það.“

Ábyrgð húseigenda gífurlega mikilvæg

Brunavarnir í húsinu voru í ólestri. Þar var einn reykskynjari, en hann var batteríslaus. Breytingar höfðu verið gerðar á húsnæðinu án tilskilins leyfis og eldvarna.  „Og það er ekki brunahólfun að stigahúsinu sem veldur því að flóttaleiðin er berskjölduð fyrir reykdreifingu,“ segir Davíð Snorrason byggingar- og brunaverkfræðingur, fyrrverandi yfirmaður brunaeftirlits hjá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun. Búið var að hólfa húsið niður í mörg lítil herbergi. „Ef að þetta hefðu verið hefðbundnar íbúðir þá hefðu líklega ekki búið svona margir á hverri hæð, eins og var raunin og þar af leiðandi voru fleiri í hættu,“ segir Davíð.

Á þriðja tug manns leigði herbergi í húsinu, en þar sem það var skráð sem íbúðarhús, en ekki gistihús, hafa yfirvöld engar heimildir til brunavarnaeftirlits, líkt og gildir um atvinnuhúsnæði.

„Hvaða úrræði höfum við? Erum við með heimild til að fara inn í íbúðir fólks? Nei, við höfum ekki þær heimildir. Erum við með möguleikann að beita stjórnvaldssektum? Nei, við höfum ekki þær heimildir,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS og framkvæmdastjóri
almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.  „Ábyrgð eigandans er alveg gífurlega mikilvæg.“

Klökknar við tilhugsunina

Hann tekur undir með Stefni, og segir erfitt að rifja upp þennan atburð. „Það kemur í rauninni alltaf á óvart að þegar maður er að tala um þetta þá verð ég alltaf hálf klökkur bara, og mér finnst eins og það hafi mistekist eða ekki gert eitthvað rétt,“ segir Jón Viðar. „En svo er maður alltaf að reyna að sannfæra sjálfan sig, við gerðum allt sem hægt var að gera, og ég held að við séum þar, en við þurfum bara fleiri úrræði.“