Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vestri og Njarðvík með sigra í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Vestri og Njarðvík með sigra í kvöld

22.10.2021 - 22:06
Tveir leikir voru spilaðir í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Vestri náði í sín fyrstu stig með sigri á Þór Akureyri og Njarðvík hafði betur gegn Valsmönnum.

Njarðvík og Valur mættust í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Fyrsti leikhluti var jafn en heimamenn voru betri aðilinn í öðrum leikhluta og því yfir í hálfleik. Þriðji leikhluti var líkt og sá fyrsti, mjög jafn, en í fjórða og síðasta leikhluta skoruðu Njarðvíkingar 33 stig gegn 20 stigum Valsmanna og lokatölur 96-70. Fotios Lampropoulos var stigahæstur Njarðvíkinga með 20 stig en Kári Jónsson var atkvæðamestur Valsmanna með 18 stig. Njarðvík bætist því við listann yfir lið sem hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína á tímabilinu, en auk þeirra hafa Keflavík og Tindastóll gert það. 

Á Ísafirði var svo landsbyggðarslagur milli heimamanna og Þórs Akureyri. Mikið jafnræði var með liðunum en Vestri var þó alltaf skrefinu á undan og vann að lokum góðan 88-77 sigur og tryggði sér sín fyrstu stig á tímabilinu. Ken-Jah Bosley skoraði 28 stig fyrir Vestra en hjá Þórsurum var það Dúi Þór Jónsson sem skoraði flest stig, 25 talsins.