Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þorsteinn: „Ef við vinnum rest förum við beint á HM“

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Þorsteinn: „Ef við vinnum rest förum við beint á HM“

22.10.2021 - 21:06
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var að vonum sáttur með 4-0 sigur liðsins á móti Tékkum í kvöld. Liðið sé enn í bílstjórasætinu og vinni það alla leikina sem eftir eru í undankeppninni fari það beint á HM.

Þrátt fyrir að aðeins væri um annan leik Íslands í undankeppni HM 2023 að ræða var ljóst að leikurinn yrði mikilvægur upp á framhaldið. Þorsteinn sagði í viðtali eftir leik að 4-0 gæfi ekki endilega rétta mynd af leiknum enda Tékkarnir sterkt lið.

„Þessi þrjú mörk í seinni hálfleik voru bara færin sem við vorum að fá þannig að maður er bara sáttur.“

Þorsteinn var ánægður með færanýtinguna sem og markvörsluna og varnarleik sem kom í veg fyrir að Tékkarnir skoruðu í þeim færum sem þær þó fengu. Stigin þrjú sem fást fyrir sigurinn í dag eru mjög mikilvæg enda hálfgerður úrslitaleikur. „Staðan var þannig að ef við hefðum tapað hefðum við náttúrulega verið fucked upp sko,“ segir Þorsteinn léttur. Vegna sigursins sé liðið hins vegar í bílstjórasætinu og geti treyst á sig sjálft. „Ef við vinnum rest förum við beint á HM.“

Viðtalið við Þorstein í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.