Það sem stríðið skildi eftir

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Það sem stríðið skildi eftir

22.10.2021 - 07:50

Höfundar

„Það er ótrúlega mikill áhugi hér á landi á að safna munum tengdum heimsstyrjöldinni síðari, miðað við að við höfum kannski minna úr að moða en safnarar annars staðar í Evrópu,“ segir Sigurður Már Grétarsson, safnari.

Hann er einn af þeim sem stóðu að sýningunni „Það sem stríðið skildi eftir,“ sem haldin var um síðustu helgi í safnamiðstöðinni Ramma í Reykjanesbæ. „Ég safna aðallega skotfærum en það er það skemmtilega við þetta að fólk er með alls konar sérhæfingar. Sumir eru bara í búningum, aðrir í orðum, sumir safna skjölum og svo framvegis.“

Sigurður á meðal annars nokkrar sprengjur, allar óvirkar að sjálfsögðu, sem fundist hafa á víðavangi á Reykjanesi. „Það er alltaf annað slagið að finnast eitthvað og þá kemur til kasta sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar að gera óvirkar sprengjur, þar sem það þarf. Það er reyndar þannig, því miður að það eru svæði hérna sem ættu helst að vera lokuð almenningi,“ segir Sigurður.