Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir nýjustu tíðindi af víkingum stórfréttir

Mynd með færslu
Byggðin sem fannst á L´Anse aux Meadows hefur verið endurgerð. Svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO. Mynd: Wikimedia Commons

Segir nýjustu tíðindi af víkingum stórfréttir

22.10.2021 - 08:32

Höfundar

Lektor í safnafræði sem lagt hefur áherslu á birtingarmynd víkinganna í samtímanum segir nýjar rannsóknir á fornminjum á Nýfundnalandi í Kanada, sem benda til þess að norrænir menn hafi siglt til í Vesturheims fyrir þúsund árum, mjög spennandi.

Rannsóknir á timbri  sem nýtt var til húsbygginga nyrst á Nýfundnalandi gefa til kynna að víkingar hafi siglt  vestur um haf árið 1021. Timbrið var höggvið með málmi sem frumbyggjar Norður-Ameríku höfðu ekki aðgang að á þeim tíma. Þrjár ólíkar trjátegundir er að finna í leifum af timbri sem fundist hafa.

Aldursgreining á trjáhringjum leiðir þetta í ljós að norrænir menn hafi verið á ferð vestanhafs fyrir tíu öldum.

Guðrún Dröfn Whitehead er safnafræðingur sem grúskað hefur í samfélagi víkinganna. Hún segir loks komna sönnun fyrir því að fólk frá Norðurlöndunum hafi dvalið  í Norður-Ameríku á Nýfundnalandi.

Guðrún segir forvitnilegt að velta fyrir sér hvort Leifur Eiríksson hafi skilið viðinn eftir sem nú fannst, eða Þorfinnur karlsefni. Saga Eiríks rauða gangi í endurnýjun lífdaga.

„Þetta er svo skemmtilegt í raun og veru að við  Íslendingar þegar  nýjar fornminjar finnast þá förum við í Íslendingasögurnar til að sjá hvernig það passar og núna erum við komin með tengingu. Núna erum við komin með haldbæra tengingu við eina af þessum sögum og eina af mikilvægustu sögunum. Þannig að það eru rosalega stórar fréttir."

Niðurstöður aldursrannsóknanna má finna í nýjasta hefti vísindaritsins Nature.

Fréttin hefur verið uppfærð.