Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrsti þjóðhöfðingi sjálfstæðs Barbados kjörinn

22.10.2021 - 02:43
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikimedia Commons
Sandra Mason var í gær kjörin fyrsti þjóðhöfðingi karabísku eyjunnar Barbados. Guardian greinir frá. Hún gegndi áður embætti landshöfðingja bresku krúnunnar á eyjunni, en eyjaskeggjar samþykktu nýverið að segja skilið við krúnuna. Þjóðþing Barbados samþykkti nær einróma skipan hinnar 72 ára Mason í embætti.

Mason sver embættiseið sinn þann 30. nóvember, þegar 55 ár verða liðin frá því Barbados hlaut sjálfstæði frá Bretlandi árið 1966. Ríkið var þó enn í samveldi bresku krúnunnar, og var Elísabet Englandsdrottning þjóðhöfðingi. Í september í fyrra samþykkti Barbados að segja skilið við bresku krúnuna, í kjölfar alþjóðlegrar umræðu um arfleifð nýlendustefnu og kynþáttahyggju nýlenduþjóða. Mason sagði þá að tími væri til kominn fyrir Barbados að segja skilið við nýlenduherrana. 

Fleiri eyríki á Karabíska hafinu hafa sagt skilið við bresku krúnuna. Guyana gerði það árið 1970, Trínídad og Tóbagó árið 1976 og Dóminíka tveimur árum síðar. Ákvörðun Barbados í fyrra kveikti svo á ný umræðu í Jaíku um hvort ekki sé kominn tími til að segja skilið við krúnuna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV