Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Elísabet slakar á í Windsor-kastala eftir sjúkrahúsdvöl

22.10.2021 - 04:17
epaselect epa08281561 Britain's Elizabeth II leaves the annual Commonwealth Service at Westminster Abbey in London, Britain, 09 March 2020. The service is an event where members of Britain's Royal family celebrate the Commonwealth - a global network of 54 countries. The event is the Sussex's final official royal engagement since announcing their intention of giving up Royal duties.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Elísabet Englandsdrottning er komin heim í Windsor-kastala eftir næturdvöl á sjúkrahúsi. AFP fréttastofan hefur eftir fréttatilkynningu frá konungsfjölskyldunni að drottningin hafi verið send í skoðun og læknir hafi ráðlagt henni að hvíla sig í nokkra daga.

Drottningin frestaði opinberri heimsókn sinni til Norður-Írlands, þar sem hún ætlaði að verða viðstödd athöfn í hafnarbænum Armagh á morgun í tilefni þess að 100 ár eru síðan Norður-Írland var stofnað. Á miðvikudag var send yfirlýsing frá Buckingham-höll um að Elísabet hafi samþykkt með semingi að hvíla sig næstu daga. Skoðunin á sjúkrahúsi Játvarðs sjöunda í miðborg Lundúna var almenn, og amar ekkert annað að hinni 95 ára gömlu drottningu en þreyta að sögn konungsfjölskyldunnar.

Dagskrá Elísabetar hefur verið þétt síðan í byrjun október. Fram til þess dvaldi hún í nokkra daga í setri konungsfjölskyldunnar í Balmoral í Skotlandi, eftir andlát Filipusar drottningarmanns, eiginmanns hennar til 73 ára. Hún hélt til að mynda ræðu á velska þinginu í Cardiff í síðustu viku, og mætti á veðhlaupabrautina í Ascot um helgina. Á mánudag hélt hún myndbandsfund með nýjum landshöfðingja krúnunnar í Nýja Sjálandi og á þriðjudag tók hún á móti tveimur nýjum sendiherrum, einnig á myndbandsfundum. Á þriðjudagskvöld tók hún á móti leiðtogum í viðskiptaheiminum víða að úr heiminum í Windsor. AFP fréttastofan segir drottninguna þá hafa verið gáskafulla að sjá, en með henni í för voru sonur hennar, krónprinsinn Karl, og sonarsonurinn Vilhjálmur prins.