Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Eitthvað sem þjóðfélagið í heild þarf að meta“

Mynd: Matthias Vogt / Volcano Heli
Hörn Hrafnsdóttir, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís, segir að tilraunir sem hafi verið gerðar með ljósleiðara í eldgosinu við Fagradalsfjall hafi veitt mikilvægar upplýsingar sem nýtist til framtíðar. Mörgum spurningum sé þó ósvarað.

Hörn ræðir á Degi verkfræðinnar í dag um innviði á Reykjanesskaga og verkfræðileg úrlausnarefni vegna eldgosa og var hún til viðtals í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Hún segir að eldri strengir hafi í einhverjum tilfellum gagnast betur en þeir nýrri. „Svo ertu kannski ekki að hanna fyrir hraunrennsli þannig að það er ekki endilega nýjustu strengirnir sem eru að standa sig best.“ 

Margir þættir til skoðunar 

Á tilraunasvæðinu fyrir neðan stífluna í Nátthaga hafi verið prófaðar fjórar útfærslur. „Sem við settum upp og þá varnir í kringum ljósleiðarann. Er hægt að setja einhverja einangrun yfir og allskonar pælingar til að reyna að minnka hitafærslu. Því að það er bæði hitinn sem getur skemmt og jarðvegsþrýstingurinn út af öllu þessu hrauni sem safnast ofan á. Þannig að þetta eru margir þættir.“

Of snemmt sé að segja til um hvort betri kostur sé að leggja strengi í jörðu. „Við þurfum núna í framtíðinni aðeins að vega og meta hvað við leggjum áherslu á. Erum við að hugsa núna um að hanna meira með tilliti til hraunrennslis á Reykjanesi eða ætlum við bara að taka á okkur að þetta mun skemmast en reyna að hafa þetta sjónrænt fallegt, hugsa um túrismann og okkur sjálf í náttúrunni. Þetta er eitthvað sem þjóðfélagið í heild þarf að vega og meta og móta sér skoðun á.“