Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Aðrar kosningar eina leiðin til að endurvekja traust“

22.10.2021 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Viðreisn
Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi segir að afstaða sín til kæra sem borist hafa vegna Alþingiskosninganna hafi komið skýrt fram í svarbréfi hans og vill ekki tjá sig frekar um málið. Þrettándi fundur undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa hófst snemma í morgun. Gestir fundarins eru hluti þeirra sem hafa kært talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi eftir alþingiskosningarnar fyrir fjórum vikum og einn fulltrúi úr yfirkjörstjórn þar.  

Meðal þeirra sem komu fyrir nefndina í morgun var Guðmundur Gunnarsson, oddviti á lista Viðreisnar í kjördæminu, einn þeirra sem kærði talninguna og hefur krafist uppkosningar. Guðmundur sagði eftir fundinn að grundvöllur kæru hans og annarra styrktist með hverjum deginum.

„Það virðist nú í þessu máli að það sé alltaf eitthvað nýtt að koma fram. Ég vona að okkar málflutningur hafi varpað skýrara ljósi fyrir nefndina á hversu stórt og grafalalvarlegt þetta mál er. Við lögðum líka áherslu á að í okkar hug þá er sú leið, að láta kjörbréfin standa eins og þau eru núna; hún er ófær,“ sagði Guðmundur.

„Í grunninn erum við að tala um að vinda ofan af vaxandi tortryggni, í hverju púsli sem leggst inn í þetta spil þá verður hún meiri og meiri og okkar kæra styrkist með hverju púslinu sem leggst niður.“

Hann sagði að mikið væri í húfi; traust kjósenda til Alþingiskosninga  og vanda þyrfti til verka.

„Við getum ekki sópað svona ótrúlegri atburðarás undir teppið á einhvern billegan hátt. Eina færa leiðin til að endurvekja traustið frá grunni er að fara í aðrar kosningar,“ sagði Guðmundur.

Aðrira sem koma fyrir nefndina í dag eru Lenya Rún Taha Karim frambjóðandi Pírata og Karl Gauti Hjaltason frambjóðandi Miðflokksins, en þau kærðu bæði talninguna til Alþingis og Karl Gauti kærði framkvæmdina einnig til lögreglu.

Þau eru meðal þeirra sem farið er um þungum orðum í skriflegu svari Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi  og tveggja annarra fulltrúa til Alþingis þar sem kærunum er mótmælt. Lenya er meðal þeirra sem hann sakar um rangar sakargiftir og refsivert athæfi og kæra Karls Gauta er sögð byggja á röngum forsendum og að hún veki furðu.

Ingi sagði í samtali við Fréttastofu RÚV að hans afstaða hefði komið skýrt fram í svarbréfinu. Hann sagðist ekki hafa meira um þetta mál að segja, bréfið segði alla söguna og vildi ekki veita Fréttastofu viðtal.