Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við erum að upplifa svo rosalega klofna tíma“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Við erum að upplifa svo rosalega klofna tíma“

21.10.2021 - 10:39

Höfundar

Fríða Ísberg rithöfundur kannar útilokunarmenningu og hugmyndina um samkennd í nýrri skáldsögu. Hennar tilfinning er sú að manneskjur mýkist með aldrinum og þoli betur skoðanir annarra.

Merking er fyrsta skáldsaga Fríðu Ísberg, sem áður hefur gefið út ljóðabækur og smásagnasafn. Bókin gerist í Reykjavík í nálægri framtíð þar sem hægt er að mæla samkennd með nýjustu tækni. Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til samkenndarprófsins, sem getur spáð fyrir um andfélagslega hegðun. „Samfélagið er að reyna að ákveða hvort allir eigi að fara í þetta samkenndarpróf og hvort samfélagið eigi að veiða siðblindar manneskjur upp,“ segir hún í viðtali í Kiljunni á RÚV.

Mynd með færslu

„Það eru ekki margir sem falla á prófinu, 1-2%, en þeim býðst meðferð eða endurhæfing. Almenningur er byrjaður að kíkja í prófið sjálfviljugur og fá ágætisvottorð, sem sýnir að það sé ekki siðblint. Samfélagið er svolítið að klofna út af þessu prófi. Það eru að myndast fleiri og fleiri rými í Reykjavík þar sem ómerktum, sem sagt fólki sem hefur ekki farið í prófið og ekki skráð sig í svona kladda um að það hafi farið í prófið, er meinaður aðgangur í ákveðnum rýmum. Sem sagt hverfum, fyrirtækjum, þjónusturýmum.“

Merking fjallar um pólariserað samfélag og segir Fríða að margir sem hafi lesið bókina tengi söguna við bólusetningar. „Ég var samt byrjuð að skrifa þetta löngu áður en covid kom þannig að ég var ekkert að hugsa svo mikið um bólusetningar. En við erum að upplifa svo rosalega klofna tíma og mér líður eins og það sé alltaf minna og minna rými til þess að tala saman. Það er alveg gríðarlega áhugavert að rannsaka þetta, skoða sem sagt cancel-kúltúr og hvernig andstæðir pólar reyna að rífast og tala saman.“

Hugmyndin að bókinni varð til eftir að hún fór að velta fyrir sér samkenndinni og samfélagi sem væri drifið áfram af henni. „Mér finnst kynslóðabilið sérstaklega áhugavert. Mín kynslóð þolir ekkert kjaftæði gagnvart fordómum og mismunun og svoleiðis, á meðan er mín tilfinning sú að við sem manneskjur þroskumst, svolítið eins og ávextir. Við mýkjumst með aldrinum og verðum í rauninni umburðarlyndari fyrir skoðunum annarra. Ég held að þetta sé ekkert nýtt af nálinni. Ég held að ungt fólk sé alltaf meira hugsjónadrifið og það er rosa áhugavert að skoða þennan núning í dag, hvernig mín kynslóð bara ákveður að vondar skoðanir eigi ekki að líðast og eldri kynslóðin segir að það verði að vera eitthvað grátt svæði, að við verðum að geta talað saman án þess að það fari allt í bál og brand.“

Sjálf vill Fríða ekki taka afstöðu fyrir lesandann, heldur draga fram báðar hliðar málsins eins samviskusamlega og mögulegt er. „Ég vil bara leyfa lesandanum að ákveða hvort þetta sé útópía eða dystópía.“

Egill Helgason ræddi við Fríðu Ísberg um skáldsöguna Merkingu í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Ég fæddist sextug og yngist með hverju árinu“

Bókmenntir

Skáldskapurinn er góður leðurjakki

Bókmenntir

Hluti af mér vill vera töffari í leðurjakka

Bókmenntir

Blæbrigðaríkar smásögur frá efnilegum höfundi