Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verjendum létt, saksóknari þarf tíma til að lesa dóminn

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Friðrik Smári Björgvinsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir of snemmt að fullyrða hvort dómnum í Rauðagerðismálinu verði áfrýjað til Landsréttar. Fyrst þurfi að fara yfir forsendur hans. Angjelin Sterkaj var í morgun dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai en hinir sakborningarnir þrír voru allir sýknaðir. „Þetta er mikill léttir, “ segir verjandi eins þeirra.

Það var þéttsetinn bekkurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar beðið var eftir niðurstöðunni í einu umfangsmesta sakamáli seinni tíma hér á landi.  Meðal annars mátti sjá Íslendinginn sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum Reykjavíkur. Um tíma sátu níu gæsluvarðhaldi og fjórtán höfðu réttarstöðu sakbornings. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Friðrik Smári Björgvinsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara.

Friðrik Smári Björgvinsson, saksóknari, sótti dómsuppsöguna í stað Kolbrúnar Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara. Hann sagði í samtali við fréttastofu að of snemmt væri að segja til um hver næstu skref yrðu. „Það á eftir að skoða forsendur dómsins og ekki tímabært að segja til um hvaða ákvörðun verður tekin í framhaldinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Geir Gestsson, verjandi Murats.

Geir Gestsson, verjandi Murats Selivrada sem var sýknaður í málinu, segir niðurstöðuna mikinn létti. „Það voru engin frumsönnunargögn sem tengdu minn mann við þetta morð. Það var því í samræmi við mínar væntingar að hann var sýknaður.“   

Hann telur fullvíst að Murat sæki bætur vegna málsins til ríkisins. „En svo velti ég því fyri mér hvort lögreglan telji við hæfi að biðja hann afsökunar á því að hlutur hans var ýktur í samantekt lögreglu um rannsóknaraðgerðir og honum gefið að sök morð sem hann átti enga hlutdeild í.“ Málinu sé því hvergi nærri lokið.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins

Angjelin Sterkaj var eini sakborningurinn í málinu sem játaði.  Hann krafðist þess að honum yrði ekki gerð refsing þar sem morðið hefði verið framið í sjálfsvörn.

Oddgeir Einarsson,  verjandi hans, vildi ekki segja hvort niðurstaðan hefði komið á óvart. Nú myndi hann fara yfir niðurstöðuna með skjólstæðingi sínum. Sjálfur var hann ekki alveg viss um að ákæruvaldið áfrýja dóminum yfir hinum sakborningunum þremur. „Mér finnst það ekki blasa við að ákæruvaldið áfrýji þeirri niðurstöðu. “

Oddgeir gagnrýndi ákæruvaldið undir lok aðalmeðferðar og undraðist að það skyldi ekki nefna einu nafni þær hótanir sem Angjelin hefði mátt þola í aðdraganda morðsins. „Það lá fyrir að það var ákveðin forsaga sem ákæruvaldið minntist ekki á en skjólstæðingur minn taldi skipta máli. Nú metum við það hins vegar saman hvort hann áfrýji dómnum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sverrir Halldórsson, verjandi Claudiu.

Sverrir Halldórsson, verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo sem var sýknuð af ákærunni, vildi stíga varlega til jarðar enda hefði ákæruvaldið sinn frest til áfrýja niðurstöðunni. Hann viðurkenndi þó að þetta væri léttir og að nú yrði það skoðað í góðu tómi hvort bætur verði sóttar til ríkisins.„En ég geri ekki ráð fyrir öðru en að svo fari.“  

Hann segir niðurstöðuna hárrétta og það hafi komið Claudiu á óvart að hún skyldi yfirhöfuð vera ákærð. „Og mér líka. “ Öll gögn hafi bent til þess að hún væri saklaus.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV