Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kerfisvilla skýri færri pilta í langskólanámi

21.10.2021 - 09:23
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Kerfisvilla er til staðar og þess vegna eru mun færri piltar en stúlkur sem fara í langskólanám. Hluta af vandanum má rekja til lestrarkunnáttu sem þarf að byggja upp allt frá barnsaldri.  Þetta segir Vilborg Einarsdóttir sem er í forsvari tvennra samtaka sem koma að gæðastarfi í skólum; hún er meðstofnandi Mentor og framkvæmdastjóri Bravo Earth. 

Tæplega þriðjungur nemenda við Háskóla Íslands eru karlar og tveir þriðju konur. Háskólarektor telur æskilegt að jafna það hlutfall aðeins í 40/60. Vilborg Einarsdóttir segir fjölda kvenna í langskólanámi ekki vandamálið, það sé gleðiefni og á pari við OECD.  

„En aftur á móti okkur vantar drengina og ég held að við þurfum að horfast í augu það að við komum þarna að til dæmis þætti eins og læsi. Læsi skiptir gríðarlega miklu máli og við höfum verið í vanda með læsi, sérstaklega meðal drengja. Þannig að við þurfum líka að horfa á það hvað veldur. Því það er ekki vandamálið hvað eru margar konur í háskóla. Okkur vantar drengina,“ segir Vilborg.

Rætt var við Vilborgu og Jón Atla Benediktsson háskólarektor á Morgunvaktinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. Félag háskólakvenna stendur fyrir málþingi í dag  um stöðu drengja í menntakerfinu. 

 

Ólöf Rún Skúladóttir