Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dregur lítillega úr hreyfingum flekans

21.10.2021 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Lítillega hefur dregið úr hreyfingum á hryggnum í hlíð Seyðisfjarðar við Búðará enda var lítil sem engin úrkoma í firðinum síðastliðinn sólarhring. Samkvæmt ofanflóðasérfræðingum Veðurstofunnar herti á hreyfingunni í fyrradag vegna rigninga í byrjun vikunnar en í morgun fór að draga lítillega úr hraðanum. Hryggurinn er í skriðusárinu frá í desember síðastliðnum. Ekki er gert ráð fyrir úrkomu fyrr en annaðkvöld. Enn er í gildi óvissustig á Seyðisfirði vegna skiðuhættu.

Í gær lækkaði vatnshæð í nokkrum borholum í hlíðinni en í mörgum þeirra er staðan svipuð og í gær. Á bloggi ofanflóðavaktar veðurstofunar er hægt að sjá nánari mælingar. Hryggurinn sem fylgst er með er í skriðusárinu frá í desember síðastliðnum. Ekki er talið að hann falli allur í einu heldur líklegra að hann fari niður í nokkrum brotum á mismunandi tímum. 

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV