Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sjónvarpspredikara gert að borga 109 milljónir í sekt

20.10.2021 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Facebook - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Eirík Sigurbjörnsson, oftast kenndur við kristilegu sjónvarpsstöðina Omega, í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða tæplega 109 milljónir í sekt vegna skattalagabrota. 360 daga fangelsi kemur í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá því að dómurinn var birtur.

Dómurinn var kveðinn upp í byrjun mánaðarins en ekki birtur fyrr en nú.

Eiríkur var ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti. Honum var gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum framtölum vegna áranna 2011 til 2016. Hann krafðist þess að málinu yrði vísað frá en þeirri kröfu var hafnað.  

Fram kom í ákæru héraðssaksóknara að Eiríkur hefði ekki talið fram á framtölum sínum persónulegar úttektir upp á 67 milljónir út af greiðslukortum sem skuldfærðust af bankareikningi Gospel Channel Evrópa hjá norska bankanum DNB.  Þá taldi hann ekki fram úttektir af viðskiptareikningi hjá Global Mission Network upp á rúmar 11 milljónir.

Héraðsdómur metur bæði þessi brot stórfelld í ljósi þeirra fjárhæða sem voru undir. 

Fram kemur í dómnum að ákæran var þingfest í mars á síðasta ári en var síðan endurúthlutað tvisvar eftir það.

Aðalmeðferð fór ekki fram fyrr en í september á þessu ári en Eiríkur óskaði sérstaklega eftir því að hún færi fram að hausti af persónulegum ástæðum. 

Engu að síður telur héraðsdómur að þær óhóflegu tafir fyrir dómi megi að stærstum hluta rekja til ástæðna sem Eiríki verði ekki kennt um.

Í hádegisfréttum útvarps kom fram að Eiríkur hafi verið sakfelldur fyrir skattalagabrot og peningaþvætti. Það er rangt. Eiríkur var sýknaður af ásökunum um peningaþvætti. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV