Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hröktu indverskan kafbát frá landhelgi Pakistans

20.10.2021 - 04:51
Mynd með færslu
Pakistanskar orrustuþotur. Mynd:
Pakistanski sjóherinn segist hafa komið í veg fyrir að indverskur kafbátur færi inn í landhelgi Pakistans um helgina. Al Jazeera hefur eftir yfirlýsingu hersins að eftirlitsflugvél hafi orðið vör við kafbátinn. Indverska varnarmálaráðuneytið hefur ekki svarað yfirlýsingunni.

Reynist þetta rétt er það í þriðja sinn síðan 2016 sem indverskur kafbátur reynir að sigla inn í pakistanska landhelgi. Síðast gerðist það í mars árið 2019. Herir og stjórnir beggja ríkja eiga það til að saka hvor önnur um ýmislegt misjafnt, þá helst að styðja við vopnaða hópa sem herja á löndin.

Samkvæmt innrauðum myndum sem fylgja yfirlýsingu pakistanska sjóhersins er kafbáturinn um 283 kílómetra suður af pakistönsku hafnarborginni Karachi. Hann er þá rétt innan marka efnahagslögsögu Pakistans.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV