Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skólp grófhreinsað meðan á viðgerð stendur

19.10.2021 - 12:38
Veggur á skólpdælustöðinni við Faxaskjól á fallegum ágúst morgni.  Vesturbær Reykjavíkur í bakgrunni.
 Mynd: Veitur/Atli Már Hafsteinsson - RÚV
Viðgerð á safnlögn í hreinistöð fyrir skólp við Ánanaust hefst á morgun og búist er við að hún taki um þrjár vikur. Ætla má að magn kólígerla í fjörum aukist umfram viðmiðunarmörk meðan á viðgerðinni stendur.

Skipta þarf um tíu metra langa ryðfría stálpípu, svokallað „trompet“ sem er síðasti viðkomustaður skólps áður en það yfirgefur hreinsistöðina.

„Trompetið“ er nokkurs konar safnlögn sem tekur á móti straumum þriggja útrásardæla og sameinar þá í einn djúpt í iðrum stöðvarinnar að því er fram kemur í tilkynningu frá Veitum.

Þaðan er skólpinu dælt fjóra kílómetra út í Faxaflóa þar sem lífræn efni brotna niður. Ákveðið var að skipta rörinu út eftir að tilraunir til viðgerða vegna leka báru takmarkaðan árangur.

Búnaðurinn er viðamikill og flókinn og smíði hans krefjandi og tímafrek en einnig hefur reynst torvelt að útvega efni til smíðinnar. Fjarlægja þarf rörið sem vegur um eitt og hálft tonn í gegnum lúgu í lofti við krefjandi aðstæður og í kjölfarið koma því nýja og meðfylgjandi búnaði fyrir.

Skólp verður grófhreinsað og allt rusl hreinsað úr því sem kemur í veg fyrir að rusl safnist í fjörur en gera má ráð fyrir að kólígerlamagn far yfir viðmiðunarmörk meðan á viðgerðinni stendur.

Í tilkynningu Veitna er áréttað að salerni séu aðeins ætluð fyrir lífrænan úrgang og klósettpappír. Veitur fylgjast gaumgæfilega með ástandi í fjörunum á meðan viðgerðinni stendur og láta hreinsa þær þyki það þurfa.