Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sjálfbærar bakkavarnir við Andakílsá

19.10.2021 - 07:50
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
Landbrot og jarðvegsrof veldur miklu tjóni á hverju ári. Nú er unnið að lagfæringum á bökkum Andakílsár með sjálfbærum bakkavörnum. „Við notum náttúruna til að vinna með okkur að styrkja bakkann fyrir rofi gegn ánni”, segir Magnea Magnúsdóttir umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar.

„Efniviðurinn kemur úr sveitinni, trjábolina fengum við úr skógi hérna nálægt og einnig grjót til að styrkja bakkann. Gróðurinn er tekinn og lagður til hliðar og er síðan settur yfir sárið. Svo grær þetta.” Dr. Hamish Moir er jarðverkfræðingur sem hefur komið að mörgum verkefnum víða um heim þar sem áhersla er lögð á umhverfisvænar lausnir í bakkavörnum.

Hann segir að mikið jarðvegsrof hafi orðið í Andakílnum undanfarin 50 ár og þess vegna hafi verið kominn tími á aðgerðir. „Veiðifélagið vildi umhverfisvænni og sjálfbærari aðferð til að verja árbakkana. Ég var í sambandi við Orku náttúrunnar og benti á það væru til aðferðir sem væru varanlegri með því að nota náttúruleg efni,” segir Moir.

Hann segir að áður fyrr hafi jarðýtur verið notaðar og árbakkinn varinn með grjóti. „Við nálgumst þetta á annan hátt með því að nota stórar trjárætur og grjót til stuðnings.”

Jón Örvar Jónsson er ráðgjafi hjá ReSource International ehf, fyrirtæki sem sérhæfir sig í umhverfisráðgjöf. Honum líst vel á þetta nýja verklag. „Við byrjum á eystri hlutanum og erum mjög spennt að sjá hvernig þetta kemur út. Framhaldið ræðst síðan af því hvernig til tekst.

Gangi þetta vel er hugmyndin að halda áfram og verja allan árbakkann. Það verður eitthvert rask á meðan á framkvæmdum stendur en það sem við erum að reyna að gera er að vinna með náttúrunni og endurbyggja svæðið. Hugmyndin er að skila svæðinu betra en það var,” segir Jón Örvar. Hefur rofið verið að ágerast?  „Já, það hefur töluvert mikið brotnað úr bakkanum, um það bil einn metri á hverju ári.

Áin hefur rofið úr bakkanum og torfurnar detta ofan í ána og liggja þar,” segir Magnea. Hún segir að þessi aðferð sé ekkert dýrari en þær sem áður hafi verið notaðar. „Þetta er ekkert mikið dýrara en þessar hefðbundnu bakkavarnir. Jafnvel ódýrara, því hér notum við efni sem er á staðnum. Verklagið er annað, við erum að reyna að fá náttúruna með okkur í lið,” segir Magnea.

„Það er mikil hvatning í því hve landeigendur og eftirlitsaðilar á Íslandi eru tilbúnir að tileinka sér aðferð sem þeir þekkja ekki. Það er uppörvandi að menn skuli vera tilbúnir að laga sig að þessari tækni,” segir dr. Moir. 

Arnar Björnsson