Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýta ætti umframorku til að stuðla að orkuskiptum

19.10.2021 - 21:20
Mynd: RÚV / RÚV
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, segir að Íslendingar ættu fyrst og fremst að horfa til þess á komandi árum að nýta alla umframorku til að stuðla að orkuskiptum innanlands. Þetta sagði hún í Kastljósi í kvöld.

„Við erum að knýja 85 prósent af samfélaginu með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þannig að tækifærið er líka að nýta lausa orku til að klára orkuskiptin, til að klára þessi 15 prósent. Ég held, af því að þú varst að nefna ráðstefnuna í Glasgow áðan, að það er líka stórt tækifæri fyrir Íslendinga að vera þetta leiðandi dæmi sem að heimsbyggðinni vantar svo þegar kemur að loftslagsmálum,“ segir Halla.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, vakti máls á þeim möguleika að selja raforku til Evrópu um sæstreng eftir Hringborð Norðurslóða sem fór fram í Reykjavík um helgina. Orkumál og umhverfismál voru áberandi á ráðstefnunni, sem var ekki síst ætlað að setja málefni norðurslóða á dagskrá fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í næsta mánuði.

„Sæstrengir eru tæknilega mögulegir, eins og forsetinn fyrrverandi kom inn á, og við erum alltaf að sjá fleiri og fleiri tengingar með orkustefnu Evrópusambandsins sem gengur mjög út á að tengja ólík orkukerfi saman en það er hins vegar alveg ljóst að í samhengi við Ísland er þetta pólitísk ákvörðun. Það er eitthvað sem Alþingi þyrfti að skoða,“ segir Halla.

„Það eru mörg mál sem þarf að horfa á í því samhengi. Þá erum við að horfa til dæmis á kostnaðarhliðina og eignarhald, hver á að eiga strenginn. Þetta eru opinberir aðilar til dæmis í Noregi og í Hollandi. Svo erum við að horfa á hluti eins og hversu mikla orku þarf til þess að svoleiðis fjárfesting beri sig og hver áhrifin eru á aðra hluti eins og á náttúru og þá umræðu alla saman. Síðan erum við líka að horfa á orkuverð,“ segir hún.