Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leggja til átta daga frí í Rússlandi

19.10.2021 - 17:31
epa09471444 Russian Emergency Situations Ministry workers preparing to sanitise Belorussky railway station as part of the campaign to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease in Moscow, Russia, 16 September 2021. Over the past 24 hours, 2479 cases of COVID-19 coronavirus infection have been detected in Moscow.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: EPA-EFE
Rússneska stjórnin leggur til að landsmenn fái átta daga frí frá vinnu um næstu mánaðamót í þeirri von að smitum af kórónuveirunni fækki. Ástandið fer hríðversnandi og bólusetning gegn veirunni gengur mun hægar en stefnt var að.

Stjórnvöld í Kreml hafa til þessa aftekið að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða á borð við útgöngubann til að draga úr smitum og COVID-19 veikindum. Nú virðist mælirinn fullur. Tatyana Golikova, aðstoðar-forsætisráðherra, lagði til á fundi ríkisstjórnarinnar í dag  að fólk héldi sig heima frá vinnu dagana 30. október til 7. nóvember. Einnig er því beint til landsmanna að sýna ábyrgð og láta bólusetja sig.

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnarinnar, sagði á fundi með fréttamönnum í Moskvu að stjórnvöld hefðu mátt gera meira til að útskýra fyrir Rússum að fátt væri til ráða gegn veirunni annað en að láta bólusetja sig, en það væri lenska að kenna æðstu ráðamönnum um allt sem miður færi.

Hvergi í Evrópu er ástandið af völdum kórónuveirunnar verra en í Rússlandi. Síðastliðinn sólarhring létust þar 1.015 af völdum COVID-19 og hafa ekki verið fleiri á einum degi frá því að heimsfaraldurinn blossaði upp. Samkvæmt opinberum gögnum eru dauðsföll orðin 225.325. Rússneska hagstofan Rossat segir að þau séu miklu fleiri eða um 400 þúsund. Einungis 35 prósent þjóðarinnar eru bólusett að fullu, þrátt fyrir endurteknar áskoranir Pútíns forseta um að gera betur.