Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hvar hefur þjóðaröryggisráð verið síðastliðin 2 ár?“

19.10.2021 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stjórnarandstaðan krefst þess að ítarlegri umræða verði um fyrirhugaða sölu á dótturfyrirtæki Símans, Mílu sem rekur ljósleiðarakerfi um allt land. Formaður Viðreisnar hefur óskað eftir að forsætisráðherra hitti formenn allra flokka til að ræða málið. Hún furðar sig á að ríkisstjórnin og þjóðaröryggisráð hafi ekki verið búin að bregðast fyrr við fyrirhugaðri sölu á fyrirtækinu. „Og ég spyr einfaldlega: hvar er Þjóðaröryggisráð búið að vera síðastliðin tvö ár?,“ spyr Þorgerður Katrín.

Síminn er langt kominn með sölu á dótturfyrirtækinu Mílu sem rekur ljósleiðarakerfi um allt land. Síminn á í einkaviðræðum við stórt alþjóðlegt fyrirtæki um söluna. Forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að málið hefði verið tekið upp á vettvangi þjóðaröryggisráðs. Þá hefði verið rætt við Símann um hvernig unnt yrði að tryggja þjóðar- og almannaöryggi óháð eignarhaldi.

Svona er Þjóðaröryggisráð skipað:

 • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra , formaður
 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra
 • Guðlaugur Þ. Þórðarson, utanríkisráðherra
 • Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis
 • Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis
 • Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis
 • Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri
 • Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands
 • Smári Sigurðsson, fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar
 • Oddný Harðardóttir, alþingismaður
 • Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Vitum ekkert hverjir þetta eru

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn lengi hafa viljað skilja að grunninnviði frá öðrum rekstri, við dræmar undirtektir. 

„Nú er þetta að fara mögulega í hendurnar á erlendum fjárfestingarsjóðum og við vitum ekkert hverjir þessir aðilar eru. Ég held að það sé augljóst að löggjafinn þarf að taka þetta föstum tökum og tryggja öryggi almennings. Þetta eru mikilvægir almannainnviðir og það er nauðsynlegt að það sé hafið yfir allan vafa að almenningur geti notað þá,“ segir Logi.

Orð forsætisráðherra með ólíkindum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, óskaði í morgun eftir að forsætisráðherra myndi ræða við formenn allra flokka á Alþingi. 

„Út frá öryggismálum finnst mér ekki hafa verið staðið vel að þessu. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á forsætisráðherra í fréttum hjá ykkur í gær boða eitthvert frumvarp núna á næstunni þegar það hefur legið fyrir í tæp tvö ár að þetta væri að fara að gerast. Ég velti fyrir mér hvað þjóðaröryggisráð er búið að gera allan þennan tíma því þetta er risa öryggismál fyrir okkur Íslendinga og ég trúi ekki öðru en þjóðaröryggisráð sé búið að kortleggja þetta allt en mér sýnist á flestu að heimavinnan hafi ekki verið unnin nægjanlega vel,“ segir Þorgerður Katrín.

Ekki óvirkir innviðir

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að með sölunni á Mílu væri verið að selja óvirka innviði. Því er Þorgerður Katrín ósammála.

„Þetta er mjög virkur búnaður og virkir innviðir. Þetta eru ekki bara möstur og ljósleiðari eins og er oft hjá orkudreifingafyrirtækjum heldur er þetta virkir hlutir eins og endabúnaður, bylgjulengdarkerfi, hugsanleg IP-net og fleira. Þá spyr maður: hvað ætlum við að gera ef þetta erlenda fyrirtæki selur t.d. kínverskum eða rússneskum fjárfestingabanka fyrirtækið? Erum við búin að fara í gegnum þessa umræðu í þjóðaröryggisráði?,“ spyr Þorgerður.

Viljum ekki að erlend ríki komist í gögnin okkar

Hún hafi í morgun óskað eftir formannafundi með forsætisráðherra en svar hafi ekki borist. „Ég tel mikilvægt að þó að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að taka sér tíma í stjórnarmyndunarviðræðurnar má þingið ekki að vera óvirkt á meðan. Það hefur ríku eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdavaldinu en ekki síst þegar kemur að þjóðaröryggi. Þá verður þingið að vera virkt. Það er það sem ég er að fara fram á, að formenn stjórnmálaflokka komi saman og fari yfir stöðuna á þessu máli ekki síst út frá öryggismálum þjóðarinnar. Við viljum auðvitað ekki að það séu einhver erlend ríki eða einkafyrirtæki sem geti komist inn í gögnin okkar þegar þeim hentar. Þannig að þetta snýst ekki bara um einhverja óvirka innviði, einhver möstur, heldur er málið stærra en það,“ segir Þorgerður.

„Og ég spyr einfaldlega: hvar er þjóðaröryggisráð búið að vera síðastliðin tvö ár? Því það hefur legið ljóst fyrir að Síminn hefur ætlað að selja Mílu þennan tíma,“ segir Þorgerður.

Hljóð og mynd fari ekki saman

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tekur undir með Þorgerði að furðulegt sé að málið hafi ekki verið tekið fyrir fyrr í þjóðaröryggisráði. 

„Það er sama þjóðaröryggisráð og hafði mjög litlar ef nokkrar skoðanir á til að mynda 87. gr. fjarskiptalaga á síðasta þingi sem sneru að því hvaðan mætti kaupa fjarskiptainnviði. Þannig að manni sýnist fljótt á litið ekki fara saman hljóð og mynd hvað áhyggjur stjórnvalda varðar af þessu máli,“ segir Bergþór.

„En það verður að halda því til haga að eftirlitsstofnanir, þær sem fjalla um fjarskiptamarkaðinn, hafa verið frekar fylgjandi því að Míla og Síminn verði aðskilin. En síðan koma auðvitað upp þessi sjónarmið með erlenda eignarhaldið og þar held ég að það sé algert lykilatriði að gagnsæi sé tryggt,“ segir Bergþór.

Verður að hugsa þetta vel

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tekur undir kröfur Þorgerðar Katrínar um fund með forsætisráðherra. 

„Þetta varðar þjóðaröryggi þannig að það er ástæða til þess að ræða þetta mun betur en virðist vera í kortunum núna. Þetta er okkar grunnnet. Allt saman heila klabbið fer í gegnum Mílu. Það verður að hugsa fyrir því vel og vandlega ef það á að selja það frá okkur og láta einhvern annan taka yfir og það erlendis,“ segir Inga.