Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gylfi Þór laus gegn tryggingu til 16. janúar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Gylfi Þór laus gegn tryggingu til 16. janúar

19.10.2021 - 11:02
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, verður áfram laus gegn tryggingu til 16. janúar. Hann hefur verið laus gegn tryggingu eftir að hafa verið handtekinn um miðjan júlí vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni.

Lögreglan á Manchester-svæðinu staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hinn 32 ára gamli karlmaður, sem var handtekinn þann 16. júli, verði áfram laus gegn tryggingu til 16. janúar á næsta ári. 

Gylfi var handtekinn á heimili sínu um miðjan júlí. Hann hefur ekki verið nafngreindur í breskum fjölmiðlum af lagalegum ástæðum.

Gylfi Þór hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðið eftir að málið kom upp.  Þá var hann ekki hluti af 25 leikmannahópi Everton sem er gjaldgengur í ensku úrvalsdeildinni.  Everton getur næst uppfært leikmannahópinn þegar félagsskiptaglugginn opnar í janúar. 

Gylfa var heldur ekki að finna á mynd sem tekin var af leikmönnum liðsins og birt var á vef félagsins fyrir skömmu. Everton hefur ekki tjáð sig mál Gylfa eftir að félagið sendi frá sér stutta yfirlýsingu þann 20. júlí. Þar kom fram að leikmaður félagsins hefði verið sendur í leyfi vegna rannsóknar lögreglu. Félagið myndi aðstoða yfirvöld eftir fremsta megni.

Engar upplýsingar hafa fengist um hvers eðlis brotið er, annað en að það snúist um kynferðisbrot gegn barni.

Hvorki forsvarsmenn KSÍ né landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu hafa viljað tjá sig um málið.  Arnar Þór Viðarsson sagði til að mynda á blaðamannafundi í lok september að hann hefði ekkert rætt við Gylfa síðustu vikur.