Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áhugi í Vogum fyrir sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Nokkurn áhuga mátti greina á íbúafundi í sveitarfélaginu Vogum á að hefja sameiningaviðræður við annað sveitarfélag. Grindavík er það sveitarfélag sem fékk flest atkvæði en einnig var töluverður áhugi á Suðurnesjabæ. Rúmlega þrettán hundruð eru búsett í Vogum.

Níutíu Vogabúar voru á íbúafundinum á fimmtudag, ýmist í eigin persónu eða rafrænt. Um sjötíu Vogabúar svöruðu spurningu um hvort kanna ætti möguleikann á að sameinast öðru sveitarfélagi.

„Það voru svona skiptar skoðanir. Það var meirihluti sem vildi alla vega skoða málið áfram og hefja sameiningaviðræður. Það var rúmlega meirihluti sem vildi það. Allmargir óvissir. Sumir vildu það ekki,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum.

Alls vildu 30 af 70 manns kanna sameiningu en tuttugu og fimm voru því mótfallnir. Þá sögðu 15 að þau væru ekki viss. Einnig voru íbúar spurðir við hvaða sveitarfélag ætti helst að ræða um sameiningu. 

„Þá nefndu flestir Grindavík,“ segir Ásgeir.

Var það svona afgerandi meirihluti sem vildi kanna hugsanlega sameiningu við Grindavík?

„Nei, ég get ekki sagt að það hafi verið afgerandi. Það munaði ekki miklu á þeim sem vildu taka upp viðræður við Grindavík og þeim sem vildu skoða Suðurnesjabæ. Það vildu fæstir tala við Hafnarfjörð en þar á milli var svo Reykjanesbær. En þetta var nokkuð jafnt myndi ég segja,“ segir Ásgeir.

Næstu skref ekki ákveðin

Þetta þýðir þó ekki að hafnar verði viðræður við Grindavík heldur verður sérstök vinnustofa með ráðgjafa þar sem bæjarstjórn og lykilstjórnendur hjá Vogum fara yfir málið. Í kjölfarið tekur bæjarstjórn ákvörðun um næstu skref. 

„Hvað sem gert verður, þá verður ekkert gert nema í samráði við íbúa og þá er atkvæðagreiðsla einn valkosturinn í því,“ segir Ásgeir.

Fyrri sameiningaráform felld

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Vogabúar ræða um sameiningu við annað sveitarfélag. Fyrir sextán árum kusu Hafnfirðingar og Vogabúar um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Hafnfirðingar samþykktu með 86% atkvæða en íbúar í Vogum, sem þá hét Vatnleysustrandahreppur, felldu. Tæp 32% sögðu já en 69% sögðu nei.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV