Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tyrkir fá líklega F-16 orrustuþotur í stað F-35

18.10.2021 - 05:53
Turkey's President Recep Tayyip Erdogan looks up during a joint news conference with German Chancellor Angela Merkel following their meeting at Huber Villa presidential palace, in Istanbul, Turkey, Saturday, Oct. 16, 2021. The leaders discussed Ankara's relationship with Germany and the European Union as well as regional issues including Syria and Afghanistan. (AP Photo/Francisco Seco)
 Mynd: AP
Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, segir fulltrúa Bandaríkjastjórnar hafa boðist til að selja Tyrkjum F-16 orrustuþotur til að launa þeim fjárfestinguna í þróun og smíði F-35 orrustuþotnanna á sínum tíma. Það verkefni var að mestu fjármagnað af Bandaríkjunum en líka af nánum bandalagsríkjum þeirra innan NATÓ; þar á meðal Tyrkjum. Þeir voru hins vegar útilokaðir frá samstarfinu - og framtíðarkaupum á F-35 þotunum - eftir að þeir fjárfestu í rússnesku eldflaugavarnakerfi.

Erdogan ræddi við fréttamenn áður en hann lagði af stað í opinbera heimsókn til nokkurra Afríkuríkja í gær. Sagði hann Tyrki vilja fá eitthvað í skiptum fyrir allt það fjármagn sem þeir hefðu lagt í F-35 verkefnið og að viðræður þar að lútandi stæðu yfir.

„Við höfum lagt 1,4 milljarða Bandaríkjadala í F-35 þoturnar, og Bandaríkjamenn lögðu til að við fengjum [F-16 þotur] fyrir þær greiðslur,“ sagði Erdogan. „Um þetta, þá sögðum við að við myndum gera það sem gera þarf til að uppfylla varnarþörf þjóðarinnar.“ 1,4 milljarðar Bandaríkjadala svara til ríflega 180 milljarða króna.

Sagði hann unnið að endurnýjun flugflota tyrkneska flughersins og að meiri áhersla yrði nú lögð á að fá nýjar F-16 vélar í flotann en að uppfæra þær sem fyrir eru. Tyrkir sömdu um kaup á rúmlega 100 F-35 orrustuþotum. Eftir að þeir sömdu við Rússa um kaup á rússneska S-400 eldflaugavarnakerfinu riftu Bandaríkin þeim samningi einhliða árið 2019.