Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sífreri í Strandartindi ógnar atvinnusvæði bæjarins

18.10.2021 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mögulegar skriður úr bráðnandi sífrera í Strandartindi ofan Seyðisfjarðar ógna atvinnuhúsnæði á staðnum, þar á meðal frystihúsinu. Ekki er gert ráð fyrir að verja atvinnusvæðið heldur aðeins íbúðarhús.

Það er ekki aðeins skriðuhætta á Seyðisfirði vegna rigninga því undir Strandartindi er viðvarandi hætta á skriðuföllum úr bráðnandi sífrera. „Í hlýnandi veðurfari þá þiðnar þessi sífreri að einhverju leyti og þá telja menn að meiri hætta sé á skriðuföllum úr þeim hlíðum þar sem sífrerinn er í brattlendi. Það er sem sagt talið að margar af þeim skriðum sem fallið hafa úr Strandartindi í gegnum tíðina eigi upptök í þessu svæði. Þar sem talið er að sífreri sé undir yfirborði. Þetta svæði er allstórt og í um 700 metra hæð. Og ber öll merki þess að laus jarðefni séu þar á hreyfingu. Og velti áfram. Þarna eru hryggir og lægðir og yfirborðsform sem benda til talsvert mikillar hreyfingar,“ segir Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Það svæði sem helst er í hættu vegna sífrerans er undir svokölluðum Þófa, en þar undir er atvinnuhúsnæði, bæði bræðslan og frystihús Síldarvinnslunnar, verkstæði og gistiheimili. Efni úr sífreranum gæti líka farið í farvegi innar í bænum og ógnað húsum við skriðusvæðið síðan í desember. 

Sífrerinn er vaktaður með nákvæmum radar sem mælir hreyfingu í hlíðinni á þriggja klukkutíma fresti. Einnig verða settir speglar í sífrerann og verður hreyfing á þeim mæld á 20 mínútna fresti. „Við teljum að það muni verða einhver aðdragandi að svona skriðufalli. En fyrir það svæði bæjarins sem er utan við svokallað Múlasvæði er komin sú niðurstaða að ekki sé tæknilega auðvelt að bregðast við þessari hættu. Þannig að verkfræðistofa og erlendir sérfræðingar sem vinna að þessu hafa komist að þeirri niðurstöðu að svæðið við Stöðvarlæk og Skuldarlæk og þar fyrir utan sé ekki hentugt að verja. Bæjaryfirvöld þurfa þá að móta skipulag af svæðinu miðað við það. Þar á meðal hvernig hugað verður að framtíðarstarfsemi í frystihúsinu eða hvaða aðstöðu verður komið upp fyrir þá vinnslu. Ef hún verður færð sem hefur verið til umræðu. En í undirbúningi ofanflóðavarna sem nú er í gangi þá eru ofanflóðasjóður og bæjarfélagið fyrst og fremst að beina athyglinni að íbúðarhúsnæði. Þannig að það er ekki til athugunar núna á næstunni að grípa til varna á því svæði þannig að það er þá fyrst og fremst vöktun sem beitt er til þess að auka öryggi á því svæði,“ segir Tómas. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV