Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sala á Mílu rædd í þjóðaröryggisráði

18.10.2021 - 18:56
Mynd: RÚV / RÚV
Forsætisráðherra segir að fyrirhuguð sala Símans á Mílu hafi verið tekin upp í þjóðaröryggisráði enda mikilvægir innviðir þar á ferð. Samgönguráðherra segir viðræður í gangi við eigendur til að tryggja almannahagsmuni.

Síminn er langt kominn með sölu á dótturfyrirtækinu Mílu sem rekur ljósleiðarakerfi um allt land. Síminn á í einkaviðræðum við stórt alþjóðlegt fyrirtæki um söluna.

„Þetta mál hefur verið tekið upp á vettvangi þjóðaröryggisráðs vegna þess að þarna er auðvitað um ákveðna grunninnviði að ræða og í kjölfarið var sett af stað skoðun á mikilvægi þessara innviða  fyrir bæði þjóðar- og almannaöryggi. Sú skoðun skilaði því að það hafa átt sér stað samræður við fyrirtækið undir forystu samgönguráðherra um það hvernig verði unnt að tryggja þetta þjóðar- og almannaöryggi óháð eignarhaldi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Samgönguráðherra segir að þegar Nova var selt á sínum tíma og Sýn seldi óvirka innviði í farsímakerfi sínu til erlendra fjárfesta hafi þeir hagsmunir ekki verið taldir meiriháttar.

„En aftur á móti þegar kom að þessari sölu á óvirkum innviðum hjá Mílu þá höfum við líka verið með það til skoðunar og höfum farið í þá vegferð til þess að tryggja ákveðna þjóðaröryggishagsmuni, að taka upp samtal við stjórn Mílu til að tryggja það og það samtal gengur bara ágætlega.“

Sigurður Ingi segir að lagaheimildir séu til að staðar svo tryggja megi hagsmuni í þessum viðskiptum. Forsætisráðherra segir að í nálægum löndum eins og Danmörku og Noregi og víðar séu lög um rýni á erlendum fjárfestingum sem teljast hafa gildi fyrir almanna- og þjóðaröryggi.

„Þannig að ég hef væntingar til þess að slíkt frumvarp verði lagt fram á Alþingi á komandi þingvetri og það hefur verið rætt sömuleiðis á vettvangi þjóðaröryggisráðsins um mikilvægi þess að við séum með slíka rýni og þá að stjórnvöld á hverjum tíma hafi einhvers konar möguleika á að bregðast við ef metið er að örygginu sé ógnað.“

Sem kunnugt er eru kvaðir um eignarhald í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði hvað varðar stærð eignarhlutar en einnig þjóðerni. Aðspurður hvort slíkt ætti að eiga við í þessum geira, segir samgönguráðherra:

„Það er alla vega nauðsynlegt að vera með skýra sýn á það hvaða þætti við þurfum að hafa stjórn á að geta haft stjórn á, hvaða upplýsingar þurfa að liggja á borðinu á hverjum tíma og það er sú vinna sem er í gangi núna og er búin að vera í þó nokkrar vikur.“

Erlendir fjárfestar hafa keypt bæði stóru greiðslumiðlunarfyrirtækin. Sigurður Ingi telur ekki að hér gæti allt stöðvast ef á skylli kreppa eins og fyrir rúmum áratug.

„En það eru svona hlutir sem við þurfum að fara yfir í breyttum heimi, það er engin spurning,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV