Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neves er nýr forseti Grænhöfðaeyja

18.10.2021 - 05:19
epa05210227 PAICV president Janira Hopffer Almada (R) flanked by the Cape Verde Prime Minister Jose Maria Neves during a political rally for the legislative elections at Sao Salvador do Mundo municipality, Santiago Island, Cape Verde, 13 March 2016. Cape Verde legislative elections will take place on 20 March.  EPA/MÁRIO CRUZ
Jose Maria Neves, nýkjörinn forseti Grænhöfðaeyja (t.v.) og forveri hans, Janira Hopffer Almada, sem verið hefur forseti frá árinu 2014. Myndin er tekin 2016, skömmu áður en flokkur þeirra tapaði meirihluta sínum á þinginu og Neves þar með forsætisráðherraembættinu.  Mynd: epa
Vinstrimaðurinn Jose Maria Neves verður nær örugglega næsti forseti Grænhöfðaeyja. Þegar búið var að telja 97 prósent atkvæða sem greidd voru í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fór gær hafði hann fengið 51,5 prósent þeirra en helsti keppinautur hans, hægri maðurinn Carlos Veiga, 42,6 prósent. Fái Neves meira en helming atkvæða í fyrri umferðinni, eins og allt bendir til, telst hann rétt kjörinn forseti og ekki þarf að kjósa á milli tveggja efstu frambjóðenda í annarri umferð.

Neves er 61 árs gamall og var forsætisráðherra Grænhöfðaeyja á árunum 2001 - 2006. Hann var í framboði fyrir Hinn afríska baráttuflokk fyrir sjálfstæði Grænhöfðaeyja. Sá flokkur var við stjórnvölinn þegar þessi fyrrverandi nýlenda Portúgala var enn eins flokks ríki, en er nú í stjórnarandstöðu. 

Veiga, sem er 71 árs, er frambjóðandi Lýðræðishreyfingarinnar, mið-hægriflokks sem tryggði sér meirihluta á þingi Grænhöfðaeyja í þingkosningum fyrir hálfu ári. Hann viðurkenndi ósigur sinn í sjónvarpsviðtali í gærkvöld og óskaði Neves til hamingju með sigurinn.

Tekist var á um efnahagsmálin í kosningabaráttunni, og þá sérstaklega um vænlegustu leiðirnar út úr þeirri efnahagskreppu ríkir á eyjunum eftir heimsfaraldur kórónaveirunnar. Rétt tæplega 400.000 manns voru á kjörskrá og gátu valið á milli sjö frambjóðenda. Kjörsókn var 48,3 prósent. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV