Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tímahylkinu lokað

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - Rúv
Nemendur á Svalbarðseyri hafa nú pakkað í tímahylki verkum sem þau unnu á tímum faraldursins og tengjast upplifun þeirra á honum. Tilgangurinn er að halda utan um upplifun barnanna fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar.

Verk um upplifun á faraldrinum

Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri á Svalbarðsströnd og nokkrir nemendur í grunnskólanum komu saman á Safnasafninu til að pakka niður listaverkum og munum í tímahylki. Verkin hafa verið til sýnis á safninu undanfarinn mánuð.

„Tímahylkið er verkefni sem við erum búin að vera að vinna að hér á Svalbarðsströnd frá því við upphaf Covid. Okkur fannst svo augljóst að það væru einhverjar miklar breytingar framundan. Við skrifuðum tímarit um upplifun fólks, um hvernig covid er að hafa áhrif á hversdaginn okkar og hvernig eru að lifa með því,“ segir Björg.

Nemendur í leik- og grunnskólanum á Svalbarðsströnd bjuggu síðan til ýmiss konar listaverk út frá sinni upplifun á faraldrinum. Um er að ræða samstarfsverkefni nemenda og kennara í leikskólanum Álfaborg og grunnskólanum Valsárskóla, starfsmanna Svalbarðsstrandarhrepps og starfsmanna Safnasafnsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - Rúv
Skúlptúrum af kórónuveirum komið fyrir í tímahylkinu

„Svolítið leiðinlegt að mega ekki hitta neinn“

Sædís Heba Guðmundsdóttir er nemandi í Valsárskóla og var ásamt skólafélögum að raða listaverkum ofan í tímahylkið. 

Hvernig fannst þér lífið á covid-tímanum? 

„Það svolítið leiðinlegt að vera einn stundum, mega ekki að hitta neina en annars var það bara fínt.“

Opnað eftir 50 ár

Ætlunin er að opna tímahylkið við hátíðlega athöfn eftir 50 ár að viðstöddum börnunum og framtíðarafkomendum þeirra.

„Það verður örugglega mjög spennandi að sjá þegar við opnum það aftur. Þá verð ég 62 ára,“ segir Sædís Heba.

Með því að pakka niður munum tengdum faraldrinum var von um að hægt yrði að kveðja veiruna. Sú varð ekki raunin og hefur faraldurinn sjaldan haft eins mikil áhrif á Svalbarðsströnd og á síðustu vikum. Grunnskólabörnin fóru öll í sóttkví og forseti Íslands lenti í smitgát vegna heimsóknar á sýningu listaverkanna sem eru í tímahylkinu.

„Í lokin þegar við héldum að við værum að setja veiruna ofan í kassa og loka fyrir þá er hún ekkert að gefa eftir sem er svolítið táknrænt fyrir þetta allt saman,“ segir Björg.