Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikið lagt inn í fræbanka framtíðarinnar

17.10.2021 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Á sjötta hundrað birkiplöntur verða gróðursettar í haust á hálendinu frá Heklu að Hrauneyjum. Gróðurreitir á þessu svæði eru hugsaðir sem fræbankar fyrir framtíðina og að birkið sái sér þaðan sjálft yfir nærliggjandi svæði.

Það var hópur á vegum verktakans Gone West sem gróðursetti allar þessar birkiplöntur. Á vef Skógræktarinnar segir að líklega sé þetta mesta plöntun um getur í sögu skógræktar á Íslandi þar sem einn hópur gróðursetur á sama svæði. Alls voru gróðursettar 456.000 birkiplöntur á um 210 hekturum á Hekluskógasvæðinu og upp í Hrauneyjar. En þar með er ekki allt upp talið því annar verktaki er að gróðursetja um 100.000 birkiplöntur á svipuðum slóðum. Í allt verður því talsvert meira en hálf milljón birkiplantna komið í jörð á Hrauneyjasvæðinu áður en vetrar. Plönturnar koma flestar frá Sólskógum í Kjarnaskógi og Kvistabæ í Biskupstungum.

Þeir reitir sem nú hefur verið gróðursett í eru hugsaðir sem fræbankar fyrir framtíðina. Að birkið sái sér sjálft úr þeim yfir nærliggjandi svæði á næstu áratugum og ef vel tekst til mun birkið breiðast með sjálfsáningu yfir þúsundir hektara í nágrenninu. Skógræktin hefur haft yfirumsjón með þessum verkefnum í samvinnu við Landgræðsluna og við uppgræðslu hefur meðal annars verið notað kjötmjöl. Næsta vor stendur til að bera á þau svæði sem gróðursett var í nú í september.