Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kaflarnir sem eru ekki í sögubókunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrátt fyrir að kynferðisofbeldi sé beitt í nær öllum hernaðarátökum hafa sárafáir dómar fallið fyrir slíka glæpi. Christina Lamb, yfirmaður erlendra frétta hjá The Sunday Times, hefur ferðast um allan heim og heyrt frásagnir þessara kvenna. Hún segir að lítið sem ekkert breytist í þessum efnum fyrr en stjórnvöld um allan heim láti sig málið varða, hingað til hefur þó alltaf eitthvað annað virst vera mikilvægara.

Heimskviður í Spilaranum.

UN Women á Íslandi héldu málþing á fimmtudag í Veröld - Húsi Vigdísar. Heiðursgestur málþingsins var Christina Lamb. UN Women höfðu samband í aðdraganda málþingsins til að vekja athygli á því og heiðursgestinum. Það var í fyrsta sinn sem ég heyrði hennar getið. 

Christina Lamb er yfirmaður erlendra frétta hjá The Sunday Times. Hún hefur ferðast um allan heim öll þau 23 ár sem hún hefur starfað sem fréttamaður. Lamb hefur unnið fjölda verðlauna fyrir störf sín sem fréttamaður og skrifað metsölubækur. Áhrif stríðsátaka á konur er rauður þráður í verkum og vinnu Lamb, sem skrifaði bókina I Am Malala með Malölu Yousafzai. Pakistönsku konunni sem var skotin í höfuðið af Talibönum. En það er vegna bókar sem kom út í fyrra sem mig langaði að tala við Christinu Lamb.

Bókin heitir Our Bodies, Their Battlefield á frummálinu en hefur sömuleiðis verið gefin út í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur og heitir Líkami okkar, þeirra vígvöllur. Undirtitillinn er Þannig fer stríð með konur og fjallar um hvernig nauðganir og annað kynferðisofbeldi er notað markvisst í flestum stríðsátökum þó svo að umræðan um það sé lítil sem engin. Enda segist Lamb hafa skrifað bókina því henni gramdist aðgerðaleysið. Kveikjan að bókinni var sömuleiðis sú að hennar tilfinning var að kynferðisofbeldi væri beitt í sífellt auknum mæli í hernaði. 

„Á síðustu sex eða sjö árum hef ég orðið vör við mikla aukningu á kynferðisglæpum í hernaði og ég skildi ekki af hverju aukningin stafaði. Og af hverju enginn væri að gera neitt í því. Þess vegna langaði mig að rannsaka þetta,“ segir Lamb. 

Christina Lamb hefur ferðast út um allt og hlýtt á sögur kvenna, raddir sem nær aldrei hafa heyrst. Raddir kvenna í Afganistan, Bangladess, Sarajevó og Japan. Raddir kvenna sem voru ungar á tímum herforingjaharðstjórnar í Argentínu og kvenna sem upplifðu þjóðarmorðin í Rúanda. Hún segir að hvert sem hún hafi komið hafi konur haft sögur að segja af nauðgunum í hernaði, þær skiptu tugum þúsunda á hverjum stað fyrir sig. 

„Það erfiðasta í starfi fréttamannsins er að heyra þessar sögur, aftur og aftur, frá konum um allan heim. Konum sem deildu með mér frásögnum af hræðilegu ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir og spyrja síðar hvaða áhrif frásögn þeirra hafi haft. Og svarið sé alltaf, engin. Þetta breytti engu, þetta er enn að gerast,“ segir Lamb. 

Nauðganir samhliða þjóðarmorðum

Við lásum flest fréttir af skólastúlkunum í Nígeríu sem liðsmenn Boko Haram rændu, við lásum fréttirnar um grimmilega framgöngu stjórnarhers Mjanmar gegn Róhingjum og við þekkjum fréttirnar af flóttamannastraumnum frá stríðshrjáðu Afganistan og Sýrlandi. Í þeim fréttum var hins vegar sjaldnast fjallað um gríðarmargar, skipulagðar og eyðileggjandi nauðganir sem hafa fylgt öllum þessum átökum. 

Ég segi gríðarmargar og nefni hér dæmi þeirri orðanotkun til stuðnings. Þjóðarmorðin í Rúanda árið 1994 þekkja mörg, þau komu meðal annars við sögu í þar síðasta þætti af Heimskviðum. Þessir hörmungardagar í lífi þjóðar, þegar um átta hundruð þúsund af þeim átta miljónum sem í landinu bjuggu voru myrt á hrottalegan hátt á einungis hundrað dögum. En það var fleira sem gerðist þessa hundrað daga í Rúanda.

Samkvæmt samantekt Sameinuðu þjóðanna voru einhvers staðar á bilinu tvö hundruð og fimmtíu þúsund til fimm hundruð þúsund konum nauðgað frá apríl og fram í júlí í Rúanda árið 1994, samhliða þjóðarmorðunum.

Það eru tvö hundruð og fimmtíu til fimm hundruð konur á dag. Í bók Lamb segir að á mörgum svæðum í landinu hafi öllum konum sem lifðu hörmungarnar af verið nauðgað. 

Tveimur árum eftir þjóðarmorðin í Rúanda gaf Mannréttindavaktin út skýrslu sem bar yfirskriftina Shattered Lives. Þetta var fyrsta heildarskýrslan með  frásögnum af kynferðisofbeldi á tíma þjóðarmorðanna og í henni var að finna lýsingar á nauðgunum, hópnauðgunum og konum sem létust þegar spjótum var stungið upp í leggöng þeirra. Þegar skýrslan kom út voru réttarhöld í gangi yfir gerendum þjóðarmorðanna.

Þar sat hins vegar enginn á sakamannabekknum ákærður fyrir nauðgun eða önnur kynferðisbrot. Það þótti mörgum skjótta skökku við í ljósi upplýsinga sem voru að finna í skýrslu Mannréttindavaktarinnar. Úr varð að bandaríski ráðunauturinn Lisa Pruitt var send til Rúanda til að kanna hvort frásagnirnar dygðu til að bæta kærum um kynferðisofbeldi við ákærur á hendur manni að nafni Jean-Paul Akayesu. Sá var borgarstjóri í Taba á tímum þjóðarmorðanna. Fimm konur stigu fram og báru vitni, stofnuðu lífi sínu í hætti með því að segja sína sögu. 

Til að gera langa sögu stutta var Akayesu dæmdur árið 1998 í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi gegn mannkyni, meðal annars fyrir að nauðganir hafi verið framkvæmdar á hans vakt. Sérstakur glæpadómstóll, stofnaður af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, komst að þessari niðurstöðu. Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem nauðgun var fyrir dómi viðurkennd sem tól til að fremja þjóðarmorð og sömuleiðis í fyrsta sinn sem alþjóðlegur dómstóll kvað upp dóm fyrir nauðgun sem stríðsglæp. 

Christina Lamb hitti konurnar fimm, en hún var einnig viðstödd þegar nokkrar þeirra hittu Jasída-konur, sem hermenn íslamska ríkisins höfðu nauðgað og svívirt mörgum árum síðar.

Lamb segir hinar hugrökku konur frá Rúanda hafa fyllst vonleysi yfir því að sagan væri enn að endurtaka sig þrátt fyrir að þær hafi á sínum tíma stigið fram og þrátt fyrir að fordæmi væru nú fyrir dómum fyrir stríðsglæpi af þessu tagi. 

Tímamótadómur

Því ofbeldið er skipulagt og hluti af hernaði sem háður er hverju sinni. Þó tala látinna og særðra sé gjarnan notuð sem mælikvarði á hörmungar hefur þó skipulagðs kynferðisofbeldis sannarlega verið getið í fréttaflutningi. Lamb segir að stríðið í Júgóslavíu hafi markað þau tímamót að þá fyrst hafi fréttamenn fjallað um kerfisbundna beitingu nauðgana og annars kynferðisofbeldis sem þátt í þjóðarmorðum og þjóðernishreinsunum. 

Frásagnir af nauðgunarbúðum þar sem konum á aldrinum sex ára til sjötugs var nauðgað, vöktu eðli málsins samkvæmt athygli og viðbjóð. Og málaferlin í kjölfar Rúanda höfðu þau áhrif að fjöldi þeirra Bosníu-Serba sem voru ákærðir í kjölfar stríðsins voru einnig ákærðir fyrir kynferðisofbeldi. Reyndar aðeins fyrir brotabrot af þeim nauðgunum sem tilkynntar voru, en samt. Og dómararnir í þeim málum gerðu meira, segir í bók Lamb. Dómarnir þeirra miðuðust við að líta mætti á kerfisbundnar nauðganir sem pyntingar og vopn sem eyðilegðu líf. 

Fyrsti tímamótadómurinn, samkvæmt Lamb, féll árið 2001 þegar þrír Bosníu-Serbar voru dæmdir fyrir nauðgun, undirokun og pyntingar. En þá eru þeir eiginlega upptaldir, dómarnir sem fallið hafa hjá alþjóðadómstólum um kynferðisofbeldi í hernaði. 

Býflugnabóndinn og fleiri hugsjónamenn

Nauðganir eru á flestum stöðum bannaðar með lögum. Þá hefur nauðgun og kynferðislegt ofbeldi gegn fólki verið skilgreint sem glæpur gegn mannkyni í alþjóðalögum. Samt hefur Alþjóðsakamáladómstóllinn í Haag aldrei dæmt nokkurn fyrir nauðgun í hernaði. Og engin slík mál hafa verið höfðuð, til dæmis fyrir hönd jasída-kvenna né stúlkna sem rænt var í Nígeríu.

Í bók Lamb eru margar frásagnir af hvunndagshetjum og hugsjónafólki sem lætur  baráttuna gegn kynferðisofbeldi í hernaði sig varða. Hún segir frá býflugnabónda í Aleppo í Sýrlandi sem hefur hætt lífi sínu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar við að bjarga jasída-stúlkum og konum úr klóm kvalara sinna í Íslamska ríkinu. Hún segir líka frá sjálfboðaliðum í Alþýðulýðveldinu Kongó sem bjóða konum uppbyggingarstarf, konum sem hefur verið nauðgað. Af hverju er þessi barátta mestmegnis keyrð áfram af sjálfboðaliðum en ekki ríkisstjórnum heims?

Lamb segir alþjóðasamfélagið vera að gera gríðarleg mistök með því að láta sig málið svo lítið varða. Nauðgun sé stríðsglæpur. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skrifuðu undir ákall fyrir tuttugu árum síðan, markmiðið var að draga úr kynferðisglæpum í hernaði. Ein leið til þess átti að vera að auka hlut kvenna í friðarviðræðum og friðargæslu. Á þessum tuttugu árum hafi hins vegar sáralítið batnað. Einungis um fimm prósent friðargæsluliða eru kvenkyns og kynferðisofbeldi er nú enn útbreiddara í hernaði en það var fyrir tuttugu árum að mati Lamb. 

Hlutur gerenda lítið rannsakaður

Þar sem eru þolendur, þar eru alltaf gerendur. Lamb segir að ástæður þess að menn, langoftast, geti framkvæmt slíkt ofbeldi í hernaðartilgangi, hafi lítið verið rannsakað. Hún hafi margoft hugsað við gerð bókarinnar, hvað geta gerendur mögulega fengið út úr því að binda öskrandi konu við bananatré og hópnauðga henni svo fyrir framan börnin hennar. Þegar hún heimsótti spítala í Kongó lá þar inni sex mánaða gömul stúlka sem hafði verið nauðgað. Það hafi verið enn erfiðara að skilja hvernig nokkur getur fengið slíkt af sér. 

Lamb segir að það þurfi sannarlega að skrifa aðra bók út frá sjónarhóli gerenda, það sé kannski verk fyrir karlmann. Henni hafi sjálfri ekki gengið vel að fá gerendur til að tala við sig um vandamálið. 

Tilgangur kynferðisofbeldis í stríði er margþættur; að niðurlægja og brjóta niður andstæðinginn með öllum tiltækum ráðum eða til að reyna að útrýma ákveðnum þjóðflokkum. 

Í bókinni Líkami okkar, þeirra vígvöllur segir Lamb að kerfisbundnar og skipulagðar nauðganir í ýmsum tilgangi eigi sér mjög langa sögu. Þannig segir rómverski sagnfræðingurinn Livíus frá því að Rómúlus, stofnandi Rómar hafi lagt á ráðin um að ræna konum nágrannaættbálksins til nýtingar þar sem það vantaði tilfinnanlega konur í Róm. Þetta var sko á áttundu öld fyrir Krist svo það eru nokkur ár síðan. 

Lamb segir að þó að sagan sé sannarlega stútfull af sögum af kynferðisofbeldi í hernaði réttlæti það ekki að það sama sé enn uppi á teningnum árið 2021 í svo miklu mæli sem raun ber vitni. 

Áhuginn dvínar fljótt

Öðru hverju ratar þetta málefni inn á ratar fjölmiðla. Heimsbyggðin fylgdist með örlögum skólastúlknanna í Nígeríu, sem liðsmenn Boko Haram rændu í skjóli nætur. Myllumerkið #BringBackOurGirls var notað um allan heim. Michelle Obama, þáverandi forsetafrú Bandaríkjanna og miklu fleiri ráðamenn og þekktir einstaklingar ljáðu málefninu rödd sína. Samt var lítið gert. Bandaríkjastjórn hét liðveislu til að finna stelpurnar, en þegar þær sáust á drónamyndum í Sambisa-skóginum strandaði á hernaðaraðstoð frá erlendum ríkjum til að frelsa stúlkurnar. 

Árið 2018 var kynferðisofbeldi í stríði sömuleiðis til umfjöllunar þegar friðarverðlaun Nóbels voru veitt. Þau voru tvö sem fengu verðlaunin fyrir baráttu sína gegn kynferðisofbeldi í stríði, annars vegar Nadia Murad,  sem var árið 2014 hneppt í kynlífsánauð í Írak af hermönnum Íslamska ríkisins eins og þúsundir annarra jasída-kvenna. Hinn verðlaunahafinn heitir Denis Mukwege, hann hefur helgað líf sitt umönnun kvenna sem lifa af kynferðisofbeldi. Það gerir hann í óþökk stjórnvalda í heimalandinu Alþýðulýðveldinu Kongó, landi sem í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2010 var kallað nauðgunarhöfuðborg heimsins. Eitt þúsund konum er nauðgað þar á degi hverjum, það eru um fjörutíu konur bara á meðan svona útvarpsþáttur er í loftinu. 

En síðan þá hefur lítið verið fjallað um ástandið þar þó Mukwege mæti í vinnuna á degi hverjum, en hafi fyrir löngu sent fjölskylduna sína úr landi vegna stöðugra hótana stjórnvalda í Kongó vegna vinnu sinnar og gagnrýni á aðgerðaleysi hæstráðenda. Þó Mukwege geti læknað líkamleg sár er fátt annað í boði fyrir konur í Kongó. Eins og Lamb bendir á; þegar aðeins 3% nauðgunarákæra í Bretlandi enda með dómi yfir geranda, hvernig ímyndar fólk sér þá að möguleikarnir séu fyrir þolendur nauðgunar í Lýðveldinu Kongó, þar sem ofbeldismennirnir eru þeir sem eru við stjónvölinn í landinu. 

Ekkert breytist fyrr en stjórnvöld láta sig málið varða

Afleiðingar kynferðisofbeldis eru margþættar. Lamb sagði flestar þeirra kvenna sem hún talaði við hafa lýst því að þær vilji ekki lifa lengur. Í síðari heimsstyrjöldinni voru þúsundir japanskra kvenna sem þvingaðar voru til að þjóna japönskum hermönnum. Þær voru kallaðar huggunarkonur, en höfðu svo ekki að neinu að hverfa eftir að stríðinu lauk. Þær voru útskúfaðar vegna þess sem þær höfðu reynt. Alþjóðlegur dómstóll Sameinuðu þjóðanna mat það svo að níutíu af hverjum hundrað huggunarkonum í Japan hafi látist eftir heimsstyrjöldina, margar þeirra treystu sér einfaldlega ekki til að lifa lengur. Það ættu að vera viðurlög við því að svipta fólk lífsviljanum, alveg eins og það er refsivert að taka fólk af lífi. 

Lamb segir að lítið sem ekkert muni breytast fyrr en stjórnvöld um heim allan setji málið í forgang. 

Sagan endurtekur sig aftur og aftur

Þau sem muna ekki eftir fortíðinni eru dæmd til að endurtakan hana eru orð sem eignuð eruð spænsk bandaríska heimspekingnum og rithöfundinum George Santayana. Fleiri þekkja líklega brot úr ræðu Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands sem lagði út frá orðum Santayana á breska þinginu árið 1948 og sagði, þau sem læra ekki af sögunni eru dæmd til að endurtaka hana. 

Hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar eru tíundaðar í sögubókum, réttilega. Þar lærum við hins vegar lítið um þá staðreynd að á lokadögum stríðsins, þegar Rauði herinn náði smám saman meirihluta Berlínar á sitt vald, nauðguðu hermenn Rauða hersins hundruðum þúsunda þýskra kvenna.

Talið er að næstum þriðju hverri konu í Berlín hafi verið nauðgað, í því sem sagnfræðingurinn Antony Beevor lýsti síðar sem umfangsmestu fjöldanauðgunum í gjörvallri mannkynssögunni. 

Það er svo lítil stemning fyrir því að halda þessum hluta sögunnar til haga að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, staðfesti árið 2014 lög sem kveða á um að sektir eða allt að fimm ára fangelsisvist gæti varðað við því að kasta rýrð á framgöngu Rússa í síðari heimsstyrjöldinni.  

Enda er sagan enn að endurtaka sig. Lamb lýsir því sem er að gerast víða í heiminum á meðan við tvær sitjum í rólegheitum og öryggi inni í hljóðeinangruðu hljóðveri í Efstaleitinu. 

„Á meðan við sitjum hér eru hermenn í Eþíópíu að nauðga konum í Tigrai héraði, kvenkyns mótmælendum í Hvíta Rússlandi er haldið föngum og þeim nauðgað í varðhaldi og Talibanar níðast á konum í Afganistan. Þetta er að gerast út um allt og þegar afleiðingarnar verða aldrei neinar fyrir gerendur heldur ofbeldið áfram,“ segir Lamb. 

Frásagnir kvennanna í bók Lamb eru mikilvæga viðbótin, kaflarnir sem vantaði í sögubækurnar sem við lærðum öll á sínum tíma.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV