Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðrún sænskur meistari með Rosengård

epa07413296 Iceland's Gudrun Arnardottir (L) in action against Scotland's Claire Emslie (R) during the Algarve Cup group A soccer match between Iceland and Scotland in Parchal, Portugal, 04 March 2019.  EPA-EFE/FILIPE FARINHA
 Mynd: EPA

Guðrún sænskur meistari með Rosengård

17.10.2021 - 14:45
Guðrún Arnardóttir varð í dag sænskur meistari í fótbolta með liði sínu Rosengård. Guðrún lék allan leikinn í vörn liðsins í 3-2 sigri á Piteå. Leikmenn Rosengård áttu í raun ekki von á að fagna titlinum í dag en sú varð engu að síður raunin vegna þess að Häcken sem er í 2. sæti gerði óvænt markalaust jafntefli við AIK.

Leikur Piteå og Rosengård hófst klukkustund síðar en úrslitum í hinum leiknum var haldið lendum fyrir leikmönnunum Rosengård. „Leikmennirnir mínir vissu ekkert af úrslitunum í þeim leik. Þær furðuðu sig bara á því af hverju við komum hlaupandi inn á völlinn eftir lokaflautið," sagði Reneé Slegers, þjálfari Rosengård í viðtali eftir leik.

Glódís Perla Viggósdóttir getur einnig leyft sér að fagna þessum sænska meistaratitli. Hún lék 12 leiki með Rosengård á tímabilinu áður en hún gekk í raðir Bayern München í Þýskalandi.

Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Piteå í dag og Hallbera Guðný Gísladóttir var fyrirliði hjá AIK sem náði þessu óvænta jafntefli við Häcken.

Rosengård er með 51 stig á toppnum þegar tveimur umferðum er ólokið, 7 stigum á undan Häcken.