Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Durst í öndunarvél vegna COVID-19 sýkingar

epa09524412 Robert Durst (L) appears in court next to his attorney David Chesnoff (R) for his sentencing at the Inglewood Courthouse in Inglewood, California, USA, 14 October 2021. Durst was sentenced to life without possibility of parole for the killing of Susan Berman.  EPA-EFE/Myung J. Chun / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Los Angeles Times POOL
Bandaríski auðkýfingurinn og morðinginn Robert Durst, sem dæmdur var í ævilangt fangelsi í vikunni er þungt haldinn af COVID-19. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann er tengdur við öndunarvél. Bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu.

Durst, sem er 78 ára gamall, var dæmdur til ævilangrar fangelsisrefsingar, án möguleika á reynslulausn, fyrir að hafa myrt trúnaðarvinkonu sína á heimili hennar í Beverly Hills árið 2000.

Sannað þykir að hann hafi myrt hana til að koma í veg fyrir að hún greindi lögreglu frá vitneskju sinni um hvarf eiginkonu Durst tveimur áratugum fyrr.

„Mjög illa á sig kominn“

Í Los Angeles Times er haft eftir lögmanni Durst, Dick DeGuerin, að skjólstæðingur hans  hafi verið mjög illa á sig komin við dómsuppkvaðninguna. „Hann átti erfitt með andardrátt og átti erfitt um mál," sagði lögmaðurinn DeGuerin. „Hann leit verr út en ég hef nokkru sinni orðið vitni að og ég hafði miklar áhyggjur af honum.“

„Drap þau öll, auðvitað“

Fasteignamógúllinn Durst hefur verið sakaður um og sætt lögreglurannsókn vegna hvarfsins á eiginkonu sinni Kathleen McCormack Durst og morðanna á Susan Berman og öldruðum nágranna sínum, Morris Black. Hann hefur jafnan neitað allri sök.

Í heimildarmyndinni „The Jinx", sem gerð var um Durst og ásakanirnar á hendur honum, mátti hins vegar heyra hann játa á sig morðin þegar hann hélt að enginn heyrði til. „Drap þau öll, auðvitað,“ muldraði hann í barminn þegar hann hélt að slökkt væri á öllum upptökuvélum - sem reyndist ekki rétt hjá honum.