Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja efla öryggisgæslu þingmanna

16.10.2021 - 07:33
epa09526041 A police cordon at the scene of a crime where MP for Southend West, Sir David Amess, was stabbed to death in Leigh-on-Sea, Britain, 15 October 2021. Amess was reportedly stabbed several times at a church in Leigh-on-Sea while holding a constituency surgery and later died of his injuries.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur beint því til lögregluyfirvalda í öllum lögreglumdæmum landsins að fara yfir og endurskoða tilhögun öryggismála og öryggisgæslu þingmanna án tafar. Ástæða þessara tilmæla er morðið á breska þingmanninum David Amess, sem ungur Breti stakk til bana á fundi í kjördæmi þingmannsins í Essex í gær. Morðið er rannsakað sem hryðjuverk þar sem lögregla fann vísbendingar um tengsl ódæðismannsins við öfga-íslamisma.

Þingmenn slegnir

Þingheimur er sleginn vegna morðsins á Amess og þingmenn hafa látið í ljós áhyggjur af eigin öryggi. Forseti neðri deildar breska þingsins, Lindsay Hoyle, lýsti því yfir að hann ætli að fara í saumana á öryggismálum þinghússins í Westminster. Þau eru raunar í stöðugri endurskoðun, segir í frétt BBC, þar sem hryðjuverkaárás á Westminster er enn talin vofa yfir.

Berskjaldaðir á opnum fundum

Bent er á að því séu takmörk sett, hvað yfirvöld geti gert til að tryggja öryggi þingmanna. Og þeir eru óvíða berskjaldaðri en á opnum kjördæmafundum eins og þeim sem Amess var á í gær, þar sem hann ræddi við kjósendur sína í návígi og hvorki öryggisgæsla né tálmar af nokkru tagi eru til staðar.

Haft er eftir tveimur þingmönnum og flokksbræðrum Amess að fyllsta ástæða sé að endurskoða fyrirkomulag kjördæmafundanna. Þótt þingmenn séu kosnir af almenningi og kjósendur eigi að hafa beinan aðgang að þeim, þá sé ef til vill kominn tími til að finna aðrar leiðir til þess en að halda galopna fundi þar sem hver sem er getur gengið inn og út, eftirlitslaust.