Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rjúpnaveiðimenn fá að minnsta kosti heilsubótargöngu

16.10.2021 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Formaður Skotvís segir það dapurlegt hve lítill rjúpnastofninn er þetta haustið. Veiðimenn verða hvattir til að veiða hóflega á fjöllum, aðeins fjórar til fimm rjúpur á mann.

Náttúrufræðistofnun lagði til í vikunni að aðeins verði veiddar tuttugu þúsund rjúpur þetta haustið.  Það er fimm þúsund rjúpum minna en lagt var til árið 2019. Veiðistofn rjúpunnar er metinn 248 þúsund fuglar og niðurstaða Náttúrufræðistofnunar er að veiðin verði ekki umfram níu prósent af veiðistofni.Þetta mat er nú hjá Umhverfisstofnun sem svo skilar Umhverfisráðuneyti tillögum að fyrirkomulagi rjúpnaveiða í haust.  

Í þau sextán ár sem Náttúrufræðistofnun hefur gefið út veiðráðgjöf hefur aldrei verið lagt til að veiða færri rjúpur. 
Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, skotveiðifélags Íslands segir að það verði lítið til skiptana á fjöllum í haust.

„Þetta er daprasti veiðistofn sem við höfum horft upp á. 4-5 rjúpur á mann er hófleg veiði.“

Ætlið þið að koma fram með tilmæli til veiðimanna?

Já, við höfum alltaf gert það og sérstaklega núna. Við höfum alltaf mælst til að menn veiði hóflega og ekki veiða umfram það sem menn þurfa. Menn hafa brugðist mjög vel við því. Veiðina hefur helmingast eða meira frá því sem var hér á árum áður.“ segir Áki.

Hann segir ástandið vera svipað í öllum landshlutum, að vesturhluta landsins helst undanskildum. Viðbúið sé að lægð í stofninum verði að minnsta kosti næsta ár, jafnvel lengur. 

Hvernig leggst þetta haust í þig og þitt fólk? 

„Þetta verður bara heilsusamlegur göngutúr mestanpart sýnist mér hjá rjúpnaveiðimönnum, það verður ekki mikið um veiði en það er alltaf gaman að fara á fjöll og njóta náttúrunar. Ef maður fær 1-2 fugla í leiðinni þá er það fullkomið.“ segir Áki.