Ófærðar-garðálfar framleiddir í óþökk aðstandenda

Mynd:  / 

Ófærðar-garðálfar framleiddir í óþökk aðstandenda

16.10.2021 - 10:00

Höfundar

Baltasar Kormákur er spenntur fyrir því að kynna fyrir landsmönnum þriðju Ófærðarseríuna, þegar fyrsti þátturinn verður sýndur á sunnudag. Þættirnir hafa slegið í gegn um allan heim og ýmiss konar varningur verið framleiddur þeim tengdur, stundum án vitneskju framleiðenda.

Ófærð snýr aftur á skjáinn á sunnudaginn klukkan 21:05 þegar fyrsti þáttur þriðju seríu þessarar geysivinsælu þáttaraðar fer í loftið. Ilmur Kristjánsdóttir, aðalleikkona þáttanna, og Baltasar Kormákur, leikstjóri og framleiðandi, kíktu í Síðdegisútvarpið og töluðu um eftirvæntinguna sem frumsýningunni fylgir. „Þetta er alltaf stór stund og það er alveg geggjað að sýna eitthvað sem stærstur hluti þjóðarinnar horfir á,“ segir Balti brattur. „Það finnst mér alveg einstaklega skemmtileg tilfinning. Það er fátt efni sem nær svona allri þjóðinni og sérstaklega í dag, þegar allt er dreift og allir að horfa á sitt hvort.“

Bollar og garðálfar

Framleiðsla á bæði á efni og varningi tengdum þáttunum hefur færst í aukana og teygt sig í óvæntar áttir, enda hafa þeir notið mikilla vinsælda um allan heim. „Menn hafa verið að gera auglýsingar, það eru bollar í Bretlandi með mynd af Ilmi og Ólafi Darra og garðálfar líka sem eru framleiddir,“ segir Baltasar og hlær. „Það var gert í óþökk okkar.“ Ferðaskrifstofa nokkur var farin að nota andlit leikaranna í auglýsingar en framleiðslan stoppaði þá markaðssetningu.

Enginn snjór en nokkur Ófærð

Serían var tekin upp á innan við ári og tökur kláruðust í byrjun árs 2021. Við tók hálft ár af eftirvinnu og aðstandendur iða í skinninu að fá loksins tækifæri til að deila afrakstrinum með áhorfendum. Þegar vikulegum sýningum lýkur á RÚV, með áttunda þættinum, fara þeir í spilara RÚV og á streymisveituna Netflix.

Yfirvaraskeggið fræga ekki með í þetta sinn

Karakterana þekkja áhorfendur en efnistökin verða ólík að einhverju leyti. „Það verður enginn snjór en nokkur ófærð,“ segir Ilmur sposk. „Ófærð getur legið víða,“ tekur Baltasar undir. „Hún getur legið í sálarangist. Manni er ófært að gera hitt og þetta.“

Lögregludúóið Hinrika, sem Ilmur leikur, og Andri hans Ólafs Darra lenda í nýjum ævintýrum með Trausta félaga sínum. Trausti er leikinn af Birni Hlyni Haraldssyni sem mun ekki skarta yfirvaraskegginu fræga að þessu sinni. „Yfirvaraskeggið var mörgum hugleikið eftir fyrstu seríuna, það er ekki komið aftur en það kemur flassbakk með því,“ segir Baltasar sposkur. Andri er ekki á Siglufirði í byrjun þáttaraðarinnar en auðvitað kemur kallið. „Við þekkjum hvernig þetta er, one last job,“ segir Baltasar um ævintýri hans.

Það sem kemur frá Hinriku kemur bara frá henni

Ilmur fer með hlutverk Hinriku í þriðja sinn og er farið að þykja ansi vænt um lögreglukonuna. „Það er gaman að fá að vera svona lengi í karakter. Maður veit ekki lengur hver hún er og hver ég er. Hún situr bara og maður pælir ekki í því, það er hundrað prósent traust og það sem kemur frá henni kemur bara frá henni,“ segir hún.

Hinrika fersk og það liggur vel á henni

Baltasar tekur undir. Hann rifjaði nýlega upp gamanþættina Seinfeld sem eru komnir í sýningu á Netflix og kveðst hafa tekið sérstaklega eftir því hvernig karakterarnir þróast með leikurunum, líkt og í Ófærð. „Frá fyrstu fram í þriðju seríu sér maður hvað þau verða miklu betri, leikaranir,“ segir hann. „En maður sér hvað þau setjast í þetta, eins finnst mér Ilmur alveg frábær í þessari seríu og lítur vel út. Hún hefur verið í gymminu, er fersk og það liggur vel á vel á henni. Hinrika er komin á nýja vegferð, hún og Bárður.“

Hann segir áhugavert að vinna með leikurunum, sem þekki karakterana jafnvel betur en hann sjálfur. „Þá verður þetta samtal til. Ég held við séum alltaf að leita að sannleikanum fyrir hvern karakter og svo þarf atburðarásin að halda áfram,“ segir Baltasar.

Möguleiki á fleiri þáttaröðum

Hann bætir við að það sé sannarlega möguleiki á að fleiri þáttaraðir verði gerðar en að ýmsir hnútar séu hnýttir í þessari seríu, sem loki sögulínum sem hófust í fyrstu seríu. „Við sjáum þetta sem þríleik sem lokar ákveðnum hlutum sem gerast í fyrstu seríu og á undan henni, sem er ástæða þess að Andri fór á Siglufjörð því hann er ekki þaðan. Konan hans var þaðan en hann fer þangað eftir áfall í karríernum og til að laga fjölskyldulífið, en þá fer bara enn verr,“ segir Baltasar.

Allir leikstjórar fá starfstilboð erlendis

Börkur Sigþórsson er aftur í leikstjórnarteyminu en við það hefur bæst nýútskrifaður leikstjóri, Katrín Björgvinsdóttir, sem lærði í Danmörku. „Ég hef haft það að leiðarljósi að gefa nýjum leikstjórum tækifæri inn í þetta. Katrín er með þrjá þætti og er að gera frábært starf og það fer áreiðanlega fyrir henni eins og Uglu Hauksdóttur, að það verður erfitt að ná í hana fyrir næsta því það gengur svo vel hjá þeim,“ segir Baltasar og heldur áfram: „Allir leikstjórarnir sem hafa leikstýrt Ófærð hafa fengið tilboð erlendis frá eftir það. Hver og einn einasti, þetta hefur opnað feykilegar dyr.“

Rætt var við Ilmi Kristjánsdóttur og Baltasar Kormák í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Sjö smáatriði sem enginn tók eftir í Ófærð

Sjónvarp

Afhjúpar ættartré Ófærðar